Ósammála skýrslu um verðtryggingu

Viðskiptanefnd Alþingis kallaði til sín viðskiptaráðherra, talsmann neytanda og fulltrúa …
Viðskiptanefnd Alþingis kallaði til sín viðskiptaráðherra, talsmann neytanda og fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna á opinn fund í morgun. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna og talsmaður neytenda gagnrýna skýrslu um verðtryggingu sem gerð var fyrir efnahags- og viðskiptaráðherra. Telja þeir að spyrja hefði átt að því hvernig ætti að afnema verðtrygginguna, eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum, en ekki hvort.

Kom þetta fram á opnun fundi viðskiptanefndar Alþingis um verðtryggingu þar sem Gísli Tryggvason talsmaður neytenda og Friðrik Ó. Friðriksson og Marinó G. Njálsson, talsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna, sátu fyrir svörum nefndarmanna. Skýrsla sem Askar capital vann fyrir viðskiptaráðherra var þar meðal annars til umræðu.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði til að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands yrði falið að gera nýja skýrslu þar sem spurt yrði að því hvernig ætti að afnema verðtrygginguna. Friðrik Ó. Friðriksson tók undir það að þörf væri á frekari rannsókn á málinu.

Gísli Tryggvason efaðist um lögmæti verðtryggingar og lagði til að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins á málinu.  Hann sagði nauðsynlegt fyrir neytendur að endurgjald fyrir lán væri í einu lagi, gagnsætt, réttlátt og löglegt.

Fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna sögðu að samtökin vildu að verðtrygging yrði afnumin af neytendalánum. Hvergi annars staðar væri boðið upp á verðtryggð neytendalán. Þeirra vegna mætti verðtrygging vera á öðrum fjárskuldbindingum. 

Þeir sögðust styðja hugmyndir um að setja þak á verðtryggingu og færa það niður í áföngum og færa íbúðarlán yfir í óverðtryggt kerfi. 

Þeir ítrekuðu einnig tillögur sínar um að leiðrétta forsendubrest vegna hrunsins og láta þakið vera afturvirkt til ársins 2008. Það myndi þýða 16-18% leiðréttingu lána. Friðrik sagði að vandinn væri orðinn svo mikill að ef ekki yrði brugðist við innan örfárra vikna væri mikil hætta á að skaðinn yrði enn meiri.

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka