Öskufall við Skóga

Krafturinn í gosinu er mikill.
Krafturinn í gosinu er mikill. Ljósmynd/Vodafone.is/eldgos

Verulegur kraftur er nú í eldgosinu í Eyjafjallajökli, eins og sjá má á vefmyndavélum. Þessu fylgir talsvert öskufall meðal annars við Skóga undir Eyjafjöllum að sögn lögreglumanna sem voru að koma úr eftirlitferð um svæðið.

"Nú fellur fín aska yfir svæðið sem þyrlast upp þegar ekið er eftir þjóðveginum," sagði varðstjóri hjá lögreglu á Hvolsvelli í samtali við mbl.is nú fyrir stundu.

Á föstudag og laugardag lék öskufall íbúa í Vík í Mýrdal grátt - og það í orðsins fyllstu merkingu. Nú hefur því slotað og í gær var unnið sleitulaust að hreinsunarstarfi í byggðarlaginu með það fyrir augum að koma hlutunum í samt lag aftur. Skólahald í Vík mun þó ekki hefjast aftur fyrr en á morgun.

Á vegum Ríkislögreglustjóra eru starfræktar þjónustumiðstöðvar í félagsheimilunum Heimalandi undir Eyjafjöllum og í Leikskálum í Vík. Á síðarnefnda staðnum verður opið hús í hádeginu í dag þar sem fólk getur sótt leiðbeiningar og ráð. Úr miðstöðinni hefur svo verið kallað eftir fólki til aðstoðar við sauðburð og laghentum iðnaðarmönnum við tilfallandi verk sem sinna þarf á sveitabæjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert