Óskar Bergsson, formaður framkvæmda- og eignaráð, vísar því á bug að tekist hafi verið á um fyrirætlanir meirihlutans um að auglýsa eftir eldri húsum og lóðum í borginni líkt og fram kom í tilkynningu sem Sigrún Elsa Smáradótir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sendi fjölmiðlum fyrr í kvöld.
Óskar bendir á að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um málið í ráðinu í dag heldur hafi meirihlutinn aðeins verið að kynna ákveðna vinnu sem sé unnin í samræmi við fjárhagsáætlun borgarinnar. Bendir hann á að fyrirætlun meirihlutans hafi þegar verið kynnt í skipulagsráði án athugasemda.
„Það er gert ráð fyrir kaupum á eldri húsum í miðborginni í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Völundarverkefnið í Reykjavík er m.a. byggt á því að borgin eigi gömul hús til að gera upp. Þetta er auðvitað gert með það í huga að selja húsin aftur,“ segir Óskar.
Að sögn Óskars hefur verið lagt til að auglýst verði eftir eldri húsum og lóðum í miðborginni þannig að allir geti komið að málinu. Aðspurður segir hann ekki ákveðið hvenær auglýst verði, en það geti orðið jafnvel í næstu eða þarnæstu viku. Tekur hann fram að fyrst verði tekin ákvörðun um framhald málsins af hálfu borgarinnar í framhaldi af slíkri auglýsingu.
Að hans mati var Samfylkingin einangruð í afstöðu sinni til málsins í framkvæmda- og eignarráði í dag. „Samfylkingin verður að svara fyrir það hvers vegna hún berst gegn því að við endurbyggjum gömul hús í miðborg Reykjavíkur.“