Útgjöld og tekjur ríkissjóðs það sem af er ári eru í samræmi við þau markmið sem sett voru við gerð fjárlaga, að sögn Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Í dag fór fram utandagskrárumræða á Alþingi um skatta og fjárlagagerð næsta árs.
Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var málshefjandi. Hún sagði að gerð fjárlaga fyrir næsta ár væri snúin þar sem stefndi í 100 milljarða króna halla þrátt fyrir skattahækkanir.
Hún taldi ekki fært að hækka skatta frekar. Hins vegar væri nauðsynlegt að auka sláttinn í hagkerfinu. Það myndi auka tekjur og skapa störf. Spurði Ólöf til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin hygðist grípa til í þeim tilgangi að auka umsvif í efnahagslífinu.
Þá spurðu hún fjármálaráðherra hvaða svigrúm hann sæi til að hækka skatta.
Þróast á betri veg
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði að bráðabirgðatölur um þróun efnahagslífsins á síðasta ári sýndu að ýmislegt hefði þróast með jákvæðari hætti en búist var við, sérstaklega eftir endurnýjun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda.
Skuldatryggingarálag hefði farið lækkandi. Landsframleiðsla hefði dregist minna saman en jafnvel síðustu spár gerðu ráð fyrir og samdrátturinn væri minni fyrstu mánuði þessa árs en gert var ráð fyrir.
Ráðherra sagði að halli ríkissjóðs hefði ekki orðið jafn mikill og gert hafi verið ráð fyrir. Atvinnuleysi orðið mun minna en fyrstu spár gerðu ráð fyrir og einkaneysla meiri.
Sagði Steingrímur að þrátt fyrir allt væri íslenska hagkerfið á réttri leið. Margt benti til þess að Íslendingar væru að komast í gegn um dýfuna á betri hátt en gert var ráð fyrir.
Hann bætti því við að gengi krónunnar hefði styrkst og vextir lækkað.
Hins vegar nefndi hann óvissuþætti vegna efnahagsvandræða í Evrópuríkjum, Icesave og eldgossins í Eyjafjallajökli.
Fjármálaráðherra rifjaði upp fyrri ummæli sín um að verkefnið væri að ná fjárlagahallanum niður um 50 milljarða á næsta ári en bætti því við að vissar vonir væru um að það gæti orðið eitthvað lægri fjárhæð.
Hann sagði gert ráð fyrir því að meginþungi aðgerða við gerð fjárlaga fyrir næsta ár yrði á útgjaldahliðinni en ekki að miklu leyti á sköttum, eins og hann tók til orða. Ekki væri gert ráð fyrir meiriháttar skattkerfisbreytingum að þessu sinni.
Skattastefnan gengur ekki upp
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði ljóst að skattastefna ríkisstjórnarinnar gengi ekki upp, eins og margir hefðu bent á. Það væri einsdæmi að ríkisstjórn nálgaðist kreppu með þeim hætti.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að auðveldi hlutinn í að ná niður fjárlagahallanum væri að baki, að innleiða á ný gamla skatta og skera mesta kúfinn af útgjaldaaukningu síðustu ára. Á næsta ári og því þar næsta muni fyrst reyna á, þá þurfi að taka raunverulegar ákvarðanir um niðurskurð ríkisútgjalda.
Ólöf Nordal sagði að það hlyti að verða meginmarkmið í ríkisfjármálum að skapa svigrúm til að tekjur geti aukist, að auka sláttinn í efnahagslífinu.