„Yfirheyrsla yfir verðtryggingunni“

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon mbl.is/Golli

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segist ekki sjá að hægt sé að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga á skömmum tíma en telur mögulegt að skapa forsendur sem sjálfkrafa draga úr vægi hennar.

Gylfi situr fyrir svörum á opnum fundi viðskiptanefndar Alþingis um verðtryggingu á Íslandi sem nú stendur yfir. Fundurinn er í beinni útsendingu á vef Alþingis og alþingisrásinni.

Fundurinn er haldinn að frumkvæði Framsóknarflokksins en þingmenn flokksins hafa lagt fram frumvarp um hámark á verðtryggingu og skipun nefndar til að skoða frekari skref til að afnema hana. Eygló Harðardóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í viðskiptanefnd, sagði í upphafi fundarins í gær að hann væri „yfirheyrsla yfir verðtryggingunni“.

Tilefni fundarins er einnig stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að óskað verði eftir mati Seðlabankans á því hvernig draga mætti úr verðtryggingu. Kom fram hjá Lilju Mósesdóttur, formanni viðskiptanefndar, að þar sem það mat muni ekki liggja fyrir fyrr en í haust hafi efnahags- og viðskiptaráðherra látið vinna skýrslu um málið sem fundarmenn ræddu.

Gylfi Magnússon sagði að líta mætti svo á að verðtryggingin væri að hluta til sjúkdómseinkenni og að hluta til aðgerð til að draga úr áhrifum sjúkdómsins. Óstöðugt verðlag væri sjúkdómurinn og óstöðugt gengi krónunnar. Það væri ástæðan fyrir því að Ísland væri eina landið í þessum heimshluta með verðtryggingu í þetta langan tíma. 

Taldi ráðherra að fyrsta og mikilvægasta skrefið væri að taka betur á stjórn peningamála til að jafna óstöðugt verðlag og mynt. Þá væri von til að þess að umræðan yrði rólegri nótunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert