„Ég tek ábyrgð“

Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.

„Maður endurskoðar afstöðu sína og stöðu þegar svona kemur upp. Mér fannst vera rétt að gera þetta. Það er engin dramatík í þessu eða engin dulin skilaboð eða neitt. Þetta er bara ákvörðun sem ég tek,“ segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, sem er hættur sem fréttastjóri Stöðvar 2, í samtali við mbl.is.

„Svona mistök eru ólíðandi og einhver verður að taka ábyrgð á þeim. Og það er ég sem tek ábyrgð á þeim,“ segir Óskar Hrafn ennfremur.

Aðspurður segist hann hafa velt þessu fyrir sér í nokkurn tíma. „Hvað ef við þurfum að leiðrétta þessa frétt, draga hana til baka og biðjast afsökunar? Hvað þá? Geri ég þær kröfur til sjálfs míns að svona eigi ekki að gerast á minni vakt, og axla ábyrgð og hætti,“ spyr Óskar. Hann segir að frá sínum bæjardyrum séð hafi aðeins verið eitt svar, eða að segja upp.

Framhaldið óráðið

Spurður út í aðrar fréttir Stöðvar 2 segir Óskar: „Við erum ekki fyrsta fréttastofan sem leiðréttir frétt. Við erum fyrsta fréttastofan, kannski, sem gerir það á jafn áberandi hátt. Ég hvet fólk til að fara yfir fréttir Stöðvar 2 undanfarið eitt og hálft ár. Þá sjá þeir að það er ekki eins og allt hafi verið morandi í leiðréttingum eða mistökum,“ segir Óskar. Hann bætir við það sé ekki sanngjarnt að dæma alla starfsmenn fréttastofu Stöðvar 2 út frá einum mistökum.

Framhaldið er óráðið að sögn Óskars. „Ég er ekki með nein plön. Ég er ekki með neitt atvinnutilboð eða neitt.“

Óskar segir að sinn tími hjá Stöð 2 hafi verið frábær. Hann hafi sett sér tvö markmið eða að draga úr kostnaði og auka áhorf. Þetta tvennt hafi tekist. „Maður getur ekki verið annað en sáttur.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert