Óskar Hrafn Þorvaldsson fréttastjóri Stöðvar 2 hefur látið af störfum. Brotthvarf hans tengist, að því er fram kemur á Vísi og RÚV, því að í gær dró fréttastofan til baka fréttir af meintum fjármagnsflutningum nafngreindra manna sem voru umsvifamiklir í atvinnulífinu í skattaskjól erlendis.
Óskar hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna málsins:
„Ég hef sagt upp sem fréttastjóri Stöðvar 2 og Vísis og tekur uppsögnin þegar gildi. Ástæðan er sú að fréttastofan birti frétt um meinta fjármagnsflutninga fjögurra íslenskra athafnamanna í júlí á síðasta ári, frétt sem við þurftum að leiðrétta og biðjast afsökunar á í gær. Á þessum mistökum ber ég ábyrgð og axla hana með uppsögninni.
Ég vil nota tækifærið og þakka frábæru samstarfsfólki á fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis fyrir samstarfið á undanförnum árum. Þegar ég tók við starfi fréttastjóra í ágúst 2008 voru markmiðin tvö. Að ná upp áhorfi á fréttir og draga úr kostnaði. Áhorf hefur aukist um 40% og kostnaður dregist saman um 20%.
Virðingarfyllst,
Óskar Hrafn Þorvaldsson“