Skilanefnd Glitnis hefur höfðað mál gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrum stjórnarformanni FL Group, og fleiri tengdum aðilum fyrir að hafa svikið tvo milljarða Bandaríkjadala, 258 milljarða króna, út úr bankanum. Var málið þingfest í New York í dag, samkvæmt frétt Bloomberg.
Segir í frétt Bloomberg að Jón Ásgeir hafi leitt hóp sem hrifsaði til sín völdin í bankanum og hreinsaði út úr honum peninga sem voru notaðir til þess að styðja við þeirra eigin fyrirtæki sem voru komin af fótum fram, að því er fram kemur í málsskjölum sem lögð voru fram í dómnum í Manhattan í New York borg í dag.
Auk Jóns Ásgeirs er fyrrum stjórnarformanni Glitnis, Þorsteini Jónssyni, og endurskoðunarfyrirtæki Glitnis, PricewaterhouseCoopers hf., stefnt í málinu.
Jafnframt er Jóni Sigurðssyni, forstjóra FL Group, Ingibjörgu Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs og síðar stjórnarformanni FL Group, Hannesi Smárasyni, Pálma Haraldssyni og Lárusi Welding, fyrrum bankastjóra Glitnis stefnt.
Segir í málsskjölunum að hrun Glitnis árið 2008 megi að stórum hluta rekja til viðskipta Jóns Ásgeirs.
Fjármununum, tveimur milljörðum dala, var safnað með útgáfu skuldabréfa til fjárfesta í New York.
Bloomberg fréttastofan segir í frétt sinni að Jón Ásgeir hafi ekki svarað tölvupósti þar sem óskað var eftir viðbrögðum hans.
Reuters fréttastofan fjallar einnig um málið í kvöld