Mál án hliðstæðu

Sérstakur saksóknari greinir frá fimm ætluðum brotum Magnús Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, í greinargerð sinni með kröfu um gæsluvarðhaldsúrskurð. Um sé að ræða mál án hliðstæðu hvað fjárhagslega hagsmuni varðar og um kerfisbundin og skipulögð brot hafi verið að ræða.

Í 1. kafla er fjallað um grun um markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi banka.

Um er að ræða kæru frá Fjármálaeftirlitinu og varðar grun um refsiverða háttsemi fyrrverandi stjórnenda og starfsmanna Kaupþings. Um sé að ræða markaðsmisnotkun með hlutabréf á tímabilinu júní 2005 til október 2008. Auk fjármálaeftirlitsins hafi rannsóknarnefnd Alþingis tilkynnt um meinta markaðsmisnotkun.

Í kaflanum segir að á árunum 2005 til 2009 hafi bankinn keypt umtalsvert af hlutabréfum útgefnum af bankanum eða um 217 milljónir hluta nettó á tímabilinu, sem sé um 29% af útgefnu hlutafé bankans miðað við útgefið hlutafé 30. júní 2008. „Umfang þessara viðskipta bankans hafi verið stór hluti af veltu hlutabréfanna í kauphöllunum í marga mánuði á tímabilinu. Sem dæmi megi nefna að frá júní til október 2008 námu kaup bankans, sem hlutfall af heildarkaupum í íslensku kauphöllinni, á bilinu 60-75% á mánuði.“

Losaði bankann við hlutabréf

Sérstakur saksóknari telur rökstuddan grun um að yfirstjórnendur, ákveðnir starfsmenn eigin viðskipta og miðlunar bankans hafi stundað þessi viðskipti fyrir hönd bankans með kerfisbundnum og skipulögðum hætti yfir langt tímabil í þeim tilgangi að hafa áhrif eða reyna að hafa áhrif á verð hlutabréfanna á mörkuðum. 

Það hafi leitt til þess að röng mynd var gefin af eftirspurn, veltu og verði hlutabréfanna. Þetta hafi einnig haft slæm áhrif á heildarvirkni verðbréfamarkaðarins á Íslandi, þar sem telja megi að markaðurinn hafi gefið ranga mynd af eftirspurn, veltu og verði hlutabréfa í Kaupþing sem hafi verið verðmætasta félagið á Íslandi á þessu tímabili og langstærsti hluti af úrvalsvísitölu kauphallarinnar.

Þáttur Magnúsar Guðmundssonar er talinn sá, að hann hafi fyrir hönd Kaupþings í Lúxemborg átt aðild að því að koma á viðskiptum með eigin hlutabréf bankans með það að markmiði að losa bankann við þau hlutabréf sem hann keypti á markaði, en þau hafi ítrekað safnast upp vegna umfangsmikilla kaupa.

Innri reglur bankans brotnar

Í 2. kafla er fjallað um kaup Holt Investment Ltd., Kevin Stanford og Desulo Trading Ltd. á hlutabréfum í Kaupþingi.

Grunur leikur á umboðssvikum en einnig markaðsmisnotkun, þar sem viðskiptin kunni að vera hluti af umfangsmikilli og skipulagðri markaðsmisnotkun. Fjölmargar innri reglur hafi verið brotnar við lánveitingarnar og rökstuddur grunur um að tilteknum stjórnendum hafi verið ljóst að þær væru í andstöðu við hagsmuni Kaupþings, þar sem sem sum þeirra hafi verið án formlegra lánasamninga og með ófullnægjandi tryggingum, til eignalausara félaga eða einstaklinga.

Lánveitingar eftir gildistöku neyðarlaga

Í 3. kafla er fjallað um lán Kaupþings til Trenvis Limited, Holly Beach S.A., Charbon Capital Ltd. og Harlow Equities S.A samtals að fjárhæð 260 milljónir evra vegna kaupa félaganna Chesterfield United inc. og Partridge Management Group á skuldabréfum tengdum skuldatryggingaálagi Kaupþings og lánveitingar Kaupþings til tveggja síðastnefndu félaganna til að mæta veðköllum frá Deutsche Bank vegna kaupanna.

Fram kemur að síðustu lánveitingarnar hafi átt sér stað eftir gildistöku neyðarlaganna og veitingu Seðlabanka Íslands á 500 milljón evra neyðarláni til Kaupþings.

Deutsche Bank hefur upplýst að ekkert fáist endurgreitt vegna viðskiptanna og tjón Kaupþings því að minnsta kosti 510 milljónir evra.

Rannsókn sérstaks saksóknara beinist að því hverjir tóku ákvörðun um viðskiptin og lánveitingarnar. Upplýsingar hafi komið fram um að Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson hafi tekið ákvarðanirnar.

Einnig beinist rannsóknin að því hvort umrædd háttsemi feli í sér umboðssvik og önnur auðgunarbrot.

Skjöl útbúin eftir fall bankans

Í 4. kafla segir frá láni og öðrum fjármagnsfærslum Kaupþings til félaganna Marple Holdings S.A. og Lindsor Holdings Corporation, kaup félaganna á skuldabréfum útgefnum af Kaupþingi á árinu 2008 og skjalagerð vegna þessara viðskipta.

Um var að ræða framvirka samninga og talið að tilgangur viðskiptanna hafi verið að flytja áhættuna af fallandi verðgildi skuldabréfa af Marple Holdings S.A. og lykilstarfsmönnum Kaupþings í Lúxemborg yfir á Kaupþing banka á Íslandi. Gögn bendi sterklega til þess að skjöl vegna viðskiptanna hafi verið útbúin og undirrituð eftir fall bankans og viðskiptin því ekki átt sér stað samkvæmt dagsetningum á skjölum.

Áhrif á verðmyndun með ólögmætum hætti

Í 5. kafla er svo fjallað um kaup Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi, þ.e. lána fyrirgreiðslur til tveggja félaga sem skráð voru á Tortola, annars vegar í eigu Ólafs Ólafssonar og hins vegar Sheiks Al-Thani.

Sérstakur saksóknari telur að tilgangurinn með viðskiptunum hafi verið að hafa með ólögmætum hætti áhrif á verðmyndum hlutabréfa í Kaupþingi á skipulegum verðbréfamarkaði. Slík háttsemi geti talist markaðsmisnotkun.

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, (til vinstri) leiddur …
Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, (til vinstri) leiddur frá skrifstofu sérstaks saksóknara. Morgunblaðið/Eggert
Hreiðar Már handtekinn
Hreiðar Már handtekinn Árni Sæberg
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi …
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri. mbl.is/Brynjar Gauti
Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert