Minna á fagleg vinnubrögð

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Á aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana, sem haldinn var á Grand Hóteli í fyrr í dag, voru  tvær ályktanir samþykktar einróma, önnur snýst um um sameiningu stofnana og hin um kjaramáls forstöðumanna.

Aðalfundurinn vildi með fyrri ályktun sinni minna á mikilvægi þess að við endurskipulagningu á opinberri stjórnsýslu á Íslandi verði byggt á faglegum vinnubrögðum og að í einstökum ráðuneytum sé fylgt þeim leiðbeiningum sem fjármálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun hafa þegar gefið út í þessum efnum.

„Fyrirliggjandi eru áform ríkisstjórnarinnar um endurskipulagningu opinberrar þjónustu þar sem meðal annars er lagt til að ýmsar stofnanir verði sameinaðar.
Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana áréttar að við tillögugerð og aðgerðir á þessu sviði sé unnið í nánu samstarfi við forstöðumenn og starfsmenn umræddra stofnana og eftir atvikum félög forstöðumanna ríkisstofnana.  Jafnframt er lögð áhersla á að staðið sé að þessum málum með sambærilegum hætti á öllum sviðum t.d. þegar kemur að réttindum starfsmanna og þar með forstöðumanna til áframhaldandi starfa hjá sameinaðri og/eða nýrri stofnun,“ segir í ályktun aðalfundarins.

Krefjast þess að brugðist sé við ósamræmi í kjörum

Á fundinum kom einnig fram það mat Félags forstöðumanna ríkisstofnana að kjararáð þurfi nú þegar í samræmi við lög að taka á því ósamræmi sem nú er á kjörum þeirra sem undir kjararáð heyra.

„Kjararáð hefur á þessu ári kveðið upp úrskurði um launakjör  aðila sem bættust í þann hóp sem undir kjararáð heyrir með lögum nr. 87/2009. Í úrskurði kjararáðs frá 23. febrúar 2010 er að finna almennar forsendur ákvarðana launa vegna þessa sem síðan eru ákveðin í hverju og einu tilviki í sérstökum úrskurði.

Við skoðun á framangreindum úrskurði kjararáðs má sjá að mikið misræmi hefur skapast í ákvörðunum kjararáðs á launum framangreinds hóps annars vegar og annarra forstöðumanna og embættismanna sem undir kjararáð heyra hinsvegar.

Að þessu er raunar vikið í VII. kafla úrskurðar kjararáðs frá 23. febrúar 2010. Þar segir að til þess að laun þessa nýja hóps sem undir kjararáð var færður með lögum nr. 87/2009 lækki ekki óhóflega, sé óhjákvæmilegt við ákvörðun launa þeirra að víkja frá þeirri stefnu kjararáðs sem áður hafði verið mörkuð um að draga úr vægi eininga. Síðan segir: „Af því mun tímabundið ósamræmi hljótast á milli sumra þeirra sem hafa heyrt undir kjararáð og þeirra sem við bætast.“

Alþingi ákvað með breytingum á lögum um kjararáð 20. desember 2008 að lækka laun þeirra sem undir kjararáð heyra um 5-15%. Þeirri kjaralækkun var viðhaldið með samþykkt Alþingis 21. desember 2009. Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana 2010 áréttar í þessu samhengi ályktun síðasta aðalfundar, þar sem framangreindri íhlutun í starfsemi kjararáðs var harðlega mótmælt. Á sama tíma hefur Alþingi falið kjararáði að ákvarða laun framkvæmdastjóra ríkisfyrirtækja með þeim hætti að ósamræmi hefur skapast í kjörum þeirra sem undir kjararáð heyra,“ segir í ályktuninni.

Formaður FFR endurkjörinn

Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana var haldinn á Grand Hóteli í fyrr í dag. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf en auk þess flutti Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands erindi í tengslum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008.

Á fundinum var Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands endurkjörinn formaður FFR. Aðrir í stjórn félagsins eru Anna Birna Þráinsdóttir sýslumaður í Vík, Ásta Valdimarsdóttir forstjóri Einkaleyfastofu, Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar og Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Í varastjórn voru kjörin Ingibjörg Sverrisdóttir Landsbókavörður, Magnús Skúlason forstjóri heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Már Vilhjálmsson rektor Menntaskólans við Sund.

Á fundinum voru tillögur að breytingum á lögum FFR samþykktar. Meðal breytinga sem samþykktar voru var tillaga um stofnun starfskjaranefndar sem kosin skal á aðalfundi til eins árs í senn. Í starfskjaranefnd FFR voru kjörin Steingrímur Ari Arason forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á Suðurnesjum og Magnús Jónsson fyrrverandi Veðurstofustjóri.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert