Næg tækifæri til að hafa áhrif á aðra

Lögmaður Magnúsar Guðmundssonar mótmælti frelsissviptingu skjólstæðings síns m.a. með þeim rökum að hann hafi haft nægan tíma til að hafa áhrif á aðra grunaða og vitni á þeim tíma sem liðinn er frá ætluðum brotum. Þau eru talin framin á árunum 2005 til 2008.

Hæstiréttur staðfesti líkt og greint hefur verið frá gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir þeim Magnúsi og Hreiðari Má Sigurðssyni. Í sératkvæði Jóns Steinars Gunnlaugssonar, Hæstaréttardómara, segist hann fallast á það með sérstökum saksóknara, að fram sé kominn rökstuddur grunur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.

Hvað viðkemur hvort þeir eigi að sæta gæsluvarðhaldi - og einangrun í varðhaldinu - komi til athugunar hvort „ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni.“

Jón Steinar segir að hafa verði í huga að brotin voru framin á árunum 2005 til 2008. Á þeim tíma hafi þráfaldlega verið fjallað um hin ætluðu brot á opinberum vettvangi og fyrir legið að þau kynnu að koma til opinberrar rannsóknar.

„Í málsgögnum kemur fram að sérstakur saksóknari hafi aflað skjala hjá Kaupþingi banka hf. við rannsóknina og að auki framkvæmt húsleit á heimili [Magnúsar] og vinnustað í þágu rannsóknar sinnar. Einnig liggi fyrir að Magnús hafi ekki lengur aðgang að gögnum sem voru í vörslum Kaupþings banka í október 2008 þegar fjármálaeftirlitið tók bankann yfir. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að ætla að [Magnús] geti torveldar rannsóknina með því að koma skjallegum sönnunargögnum undan,“ segir í sératkvæði Jóns Steinars vegna úrskurðar yfir Magnúsi.

Jón Steinar bendir einnig á, að ekki sé hægt að fallast á kröfu sérstaks saksóknara nema sakborningar „muni“ torvelda rannsókn málsins. „[Sérstakur saksóknari] rökstuddi ekki sérstaklega við meðferð málsins í héraði á hverju hann byggði ætlan sína um þetta. Hann hefur ekki bætt úr þessu fyrir Hæstarétti.“

Þá bendir Jón Steinar á, að í forsendum úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur segi að sakborningar „geti“ torveldað rannsókn málsins. „Þessi forsenda er efnislega frábrugðin því sem texti laganna áskilur auk þess sem hún er með öllu órökstudd.“

Að endingu segist Jón Steinar ekki gera ágreining við meirihluta Hæstaréttardómara um að gögn málsins bendi til þess að málið sé ekki fullrannsakað. Það geti hins vegar ekki verið röksemd fyrir gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hann bendir ennfremur á að strangar kröfur séu gerðar í stjórnarskrá Íslands til þess að hneppa megi menn í gæsluvarðhald, og að öllu skoðuðu beri að fella gæsluvarðhaldsúrskurðinn úr gildi.

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari. mbl.is
Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, (til vinstri) leiddur …
Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, (til vinstri) leiddur frá skrifstofu sérstaks saksóknara. Morgunblaðið/Eggert
Hreiðar Már Sigurðsson
Hreiðar Már Sigurðsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert