Ætlar ekki að verjast kyrrsetningu

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar

Jón Ásgeir Jóhannesson segir í samtali við Bloomberg fréttastofuna, að hann ætli ekki að taka til varna vegna kyrrsetningarúrskurðar, sem kveðinn hefur verið upp í Bretlandi og nær til allra eigna Jóns Ásgeirs hvar sem er í heiminum, þar á meðal til tveggja íbúða sem hann á í New York.

„Það er lítið hægt að hreyfa sig," hefur Bloomberg eftir Jóni Ásgeiri. „Þeir hafa náð markmiðum sínum. Þetta er hræðilegt."

Hann segist þó ekki ætla að taka til varna vegna kyrrsetningarúrskurðarins en staðfestingarmál verður tekið fyrir í breskum rétti 28. maí. Hefur Jón Ásgeir eftir bandarískum lögmanni sínum, að kostnaður við að taka til varna í málinu yrði allt að 2,5 milljónim dala, jafnvirði  yfir 300 milljóna króna.

„Það er ekki mögulegt að verjast í þessu máli," hefur Bloomberg eftir Jóni Ásgeiri. „Þeir unnu. Þetta er kallað vinstri krókur í hnefaleikum."

Fram kom á blaðamannafundi slitastjórnar Glitnis í dag, að Jón Ásgeir hafi 48 stunda frest til að leggja fram skrá yfir eignir sínar frá því honum hefur verið birtur kyrrsetningarúrskurðurinn. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnarinnar, sagði að erfiðlega gengi að finna fast heimilisfang Jóns Ásgeirs og því vissi hún ekki hvort búið væri að birta honum úrskurðinn.

Fram kemur í frétt Bloomberg, að Jón Ásgeir vildi ekki gefa upp hvar hann væri niðurkominn.

„Bara pólitík"

Jón Ásgeir segir í viðtalinu, að ásakanir slitastjórnar Glitnis um að klíka kaupsýslumanna undir hans stjórn hafi rænt bankann innanfrá til að styrkja stöðu eigin fyrirtækja séu „bara pólitík."  

„Ég hef sannanir fyrir því, að við vorum að endurgreiða lán sem áttu að falla í gjalddtaga 20-40 dögum síðar. Þetta snérist aðeins um að endurfjármagna eldri lán."

Slitastjórnin segir hins vegar, að fall Glitnis haustið 2008 megi að stórum hluta rekja til aðgerða Jóns Ásgeirs og félaga hans. Þeir hafi eytt lausafjárforða bankans þannig að hann stóð eftir varnarlítill þegar alþjóðleg fjármagnskreppa þrengdi að Íslandi sumarið 2007.

Bloomberg hefur hins vegar eftir Jóni Ásgeiri, að hann telji að málshöfðunin sé runnin undan rifjum pólitískra andstæðinga hans, þar á meðal Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins. 

Segir Jón Ásgeir, að ef Glitnir hafi sannanir fyrir ásökunum sínum ætti bankinn að óska eftir því að íslensk stjórnvöld höfði sakamál á hendur honum.

Í tilkynningu slitastjórnar Glitnis kom fram, að bankinn hafi vísað málum til sérstaks saksóknara og íslenskra stjórnvalda eftir því sem við eigi. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnarinnar, sagði á blaðamannafundi í dag að slitastjórnin teldi að hegningarlög hefðu verið brotin í rekstri bankans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert