Atvinnuleysi 9%

Yfirleitt er meira um framkvæmdir yfir sumartímann og verður væntanlega …
Yfirleitt er meira um framkvæmdir yfir sumartímann og verður væntanlega fleiri sem starfa í þeim geira á næstunni en nú mbl.is/Golli

Skráð atvinnuleysi á Íslandi var 9% í apríl en að meðaltali 14.669 manns voru atvinnulausir og minnkar atvinnuleysi um 2,6% frá mars, eða um 390 manns að meðaltali.

Mest fækkar körlum á atvinnuleysisskrá eða um 374 að meðaltali en konum fækkar um 16 að meðaltali. Fækkunin er hlutfallslega meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu eða um 4% (184), en um 2% á höfuðborgarsvæðinu (206).

Mest fækkar atvinnulausum í mannvirkjagreinum eða um 217 manns. Atvinnuleysið er 9,7% á höfuðborgarsvæðinu en 7,8% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum 14,6%, en minnst á Vestfjörðum 3,7%.

Atvinnuleysið er 9,8% meðal karla og 8,1% meðal kvenna.

Alls voru 15.932 atvinnulausir í lok apríl. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 13.082, af þeim voru 3.701 í einhvers konar úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í ráðgjafarviðtöl, á kynningarfundi og í vinnumiðlun.

56% hafa verið án atvinnu í meira en sex mánuði

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 8.917 og fjölgar um 384 frá lokum mars og er um 56% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok apríl. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fjölgar úr 4.601 í lok mars í 4.662 í lok apríl.

Alls voru 3.024 á aldrinum 16-24 ára atvinnulausir í lok apríl en 3.147 í lok mars eða um 19% allra atvinnulausra í apríl.

Yfirleitt batnar atvinnuástandið frá apríl til maí. Í maí 2009 minnkaði atvinnuleysi úr 9,1% í apríl í 8,7% í maí. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í maí minnki og verði á bilinu 8,6%-9,0%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert