Brynjar formaður Lögmannafélagsins

Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður.
Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður.

Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður var í dag kjörinn formaður Lögmannafélags Íslands, en aðalfundur félagsins var í dag. Þetta var í fyrsta skipti í sextán ár sem formaður var ekki sjálfkjörinn, en mótframbjóðandi Brynjars var Heimir Örn Herbertsson hæstaréttarlögmaður.

Var Heimir Örn fulltrúi sitjandi stjórnar í kosningunni. Fór kosningin svo að Brynjar fékk um það bil 75% atkvæða en Heimir Örn um 25% atkvæða.

Aðspurður segir Brynjar ekki um neinn stefnuágreining að ræða á milli sín og Heimis. Ekki sé að vænta stórra breytinga í starfsemi Lögmannafélagsins, að öðru leyti en því að fá þurfi félaginu meira vægi í almennri umræðu, ekki síst í því að standa vörð um réttarríkið.

Aðspurður játar Brynjar því að sumir kjósendur hafi mögulega varið atkvæði sínu í ljósi þess á hvaða lögfræðistofum frambjóðendurnir starfa. Brynjar starfar hjá Lagastoð, en Heimir Örn hjá Lex. Lex er ein stærsta lögmannsstofa landsins og tengist því ósjaldan lögfræðilegum málum sem ber hátt í þjóðfélagsumræðunni. Getur það hafa skipt máli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert