Ekki búið að handtaka Sigurð

Sigurður Einarsson.
Sigurður Einarsson. mbl.is/Kristinn

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur ekki verið handtekinn að sögn Gests Jónssonar, lögmanns Sigurðar. „Ég veit ekki til þess að það hafi gerst. Ég teldi mig vita ef svo hefði verið,“ segir Gestur, sem ræddi við Sigurð í dag.

„Sigurður hefur boðist til að koma til Íslands og gefa hér skýrslu, ef hann getur fengið að fara til baka til síns heima þegar það er búið,“ segir Gestur í samtali við mbl.is.

„Hann hefur sagt að hann sé ekki reiðubúinn að koma hingað upp á þau býtti að verða bara handtekinn og settur í fangelsi,“ segir Gestur og bætir við að sérstakur saksóknari vilji ekki fallast á þetta.

Embætti sérstaks saksóknara hefur gefið út handtökutilskipun á hendur Sigurði, sem er nú eftirlýstur á vef Alþjóðalögreglunnar, Interpol.

„Við höfum reyndar ekki séð hana og ég hef beðið um að fá hana afhenta, en það hefur ekki verið gert,“ segir Gestur.

Spurður nánar út í handtökutilskipunina segir Gestur ljóst að Íslendingar hafi enga lögsögu í Bretlandi. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig frekar um málið.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins, að breska lögreglan Scotland Yard hafi hafnað ósk frá embætti sérstaks saksóknara um að handtaka Sigurð. Ástæðan sé sú, að láðst hafi að lögfesta aðild Íslendinga að Evrópusamningi um handtöku og framsal grunaðra eða dæmdra manna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert