Flestir, eða 37,6% aðspurðra, segjast bera mikið traust til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra í nýrri könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum. Aftur á móti fjölgar þeim nokkuð sem segjast bera lítið traust til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.
Traust til Steingríms helst nær óbreytt frá síðustu könnun MMR í september 2009.
Þá sögðust 23,9% bera mikið traust til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra borið saman við 36,0% í síðustu könnun. Fyrir rúmu ári síðan í febrúar 2009 kváðust 58,5% bera mikið traust til Jóhönnu.
Rúmlega 40% svarenda sögðust bera lítið traust til Steingríms og helst það svo til óbreytt frá síðustu könnun en þeim fjölgar nokkuð sem segjast bera lítið traust til Jóhönnu eða 52,9% borið saman við 39,8% í síðustu könnun.
Næst flestir eða 26,7% sögðust bera mikið traust til Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands en 46,9% sögðust bera lítið traust til hans.
Nú segjast 16,1% bera mikið traust til Birgittu Jónsdóttur, formanns þingflokks Hreyfingarinnar en 7,4% báru mikið traust til hennar skv. könnuninni í september 2009.
Þeim sem segjast bera lítið traust til Birgittu fækkar nokkuð milli kannanna, nú segjast 55,4% bera lítið traust til hennar borið saman við 63% í síðustu könnun.
Aftur á móti fjölgar þeim nokkuð sem segjast bera lítið traust til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, 67,0% sögðust bera lítið traust til hans nú samanborið við 54,4% í síðustu könnun.
Ef litið er á afstöðu svarenda til stjórnmálaflokka, má t.d. sjá að Steingrímur J. Sigfússon nýtur trausts meðal 88,1% þeirra sem segjast myndu kjósa Vinstri græna væri gengið til kosninga nú, Jóhanna Sigurðardóttir nýtur trausts meðal 75,6% stuðningsmanna Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nýtur trausts meðal 70,3% Framsóknarmanna og Bjarni Benediktsson nýtur trausts meðal 55,6% Sjálfstæðismanna.
Könnunin var framkvæmd dagana 4.-10. maí 2010 og var heildarfjöldi svarenda 976 einstaklingar.