Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Ingólfi Helgasyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, hefur verið kærður til Hæstaréttar. Jóhannes Bjarni Björnsson, verjandi Ingólfs, vonast til að dómstóllinn taki afstöðu til kærunnar sem fyrst.
Í gærkvöldi úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur Ingólf í vikulangt gæsluvarðhald, eða fram á þriðjudag í næstu viku. Hann var færður á Litla-Hraun þar sem hann er vistaður.
„Ingólfur lýsti yfir kæru strax. Þannig að það er búið að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar,“ segir Jóhannes Bjarni í samtali við mbl.is.
Hann vonast til að dómstóllinn geti tekið afstöðu til kærunnar í dag en í síðasta lagi á föstudag, enda frídagur á morgun.
Steingrímur Kárason, fyrrverandi framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings, var úrskurðaður í vikulangt farbann í gærkvöldi. Sigurmar Kristján Albertsson, lögmaður Steingríms, segir að ekki sé búið að taka afstöðu til þess hvort úrskurður héraðsdóms verði kærður.