Glitnir: „Skýstróks-áætlunin“

Jón Ásgeir vann markviss að því að ná yfirhöndinni í …
Jón Ásgeir vann markviss að því að ná yfirhöndinni í Glitni og nefndist áætlunin skýstrokkur mbl.is/Árni Sæberg

Jón Ásgeir Jóhannesson notaði FL-Group til þess að ná yfirráðum yfir Glitni og nefndist áætlunin „Project Tornado", eða „Skýstróks-áætlunin“.  Var stjórn bankans vikið frá og ný stjórn bankans skipuð einstaklingum sem tengdist fyrirtækjum sem Jón Ásgeir stjórnaði.

Jafnframt handstýrði Jón Ásgeir því að Lárus Welding var látinn taka við sem forstjóri Glitnis í stað Bjarna Ármannssonar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í stefnu slitastjórnar Glitnis sem var þingfest í New York í gær.

Óeðlilega góð laun Lárusar Welding

Þar kemur fram að engu hafi skipt að Lárus hafi ekki áður stýrt jafn viðamikilli starfsemi og rekstur Glitnis var. Lárus stýrði áður útibúi Landsbankans í Lundúnum og voru 75 starfsmenn í útibúinu. Starfsmenn Glitnis voru á þessum tíma 1.900 talsins. 

Segir í stefnunni að Lárusi hafi verið boðin óeðlilega góð laun hjá Glitni. Á sama tíma og hann fékk svo kallaðar sérstakar greiðslur, tryggðan árlegan bónus og kaupréttarsamning hafi honum verið heitið sérstakri umbun eftir fyrsta ár í starfi sem var meira en 10 milljón dala virði, jafnvirði 1.300 milljóna króna. Þessu til samanburðar voru heildarlaun Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi forstjóra Glitnis 3,3 milljónir dala, jafnvirði 426 milljóna króna, fyrir tíu ára starf.

Kvartaði og sagði Jón Ásgeir koma fram við sig sem útibússtjóra

Í stefnunni er vísað í tölvupóstsamskipti Lárusar og Jóns Ásgeirs þar sem Lárus kvartar undan því að Jón Ásgeir komi frekar fram við hann sem útibússtjóra en forstjóra. 

Samkvæmt skjölum málsins þá hóf Jón Ásgeir markvisst að vinna að því að ná yfirráðum yfir Glitni á árinu 2006. Þá fór FL-Group fram á - Jón Ásgeir var stjórnarformaður félagsins á þessum tíma - heimild Fjármálaeftirlitsins til að fara með virkan eignarhlut sem nam meira en 10% hlutafjár í Glitni. FL fékk heimild til þess 29. janúar 2007 að fara með 33% hlut í Glitni frá FME.

Eftir að hafa fengið samþykki FME setti Jón Ásgeir af stað áætlun um hvernig félagið gæti eignast stærri hlut í Glitni í þeim tilgangi að ná yfirráðum yfir bankanum.

Þann 5. apríl 2007 átti net fyrirtækja sem tengdust Jóni Ásgeiri tæplega 39% hlut í Glitni, sem er talsvert meira en heimild FME til handa FL sagði til um en þar var kveðið á um 33% hlut. Óskaði FME eftir því að FL-Group og Jötunn myndu óska eftir nýrri heimild til þess að fara með virkan eignarhlut og í desember 2007 var þeim neitað um að mynda saman virkan eignarhlut í bankanum.

Réð yfir bankanum í raun

Þrátt fyrir að  markmið „Project Tornado“ um óvinveitta yfirtöku á Glitni hafi ekki gengið sem skyldi þá réð Jón Ásgeir yfir tæplega 39% hlut í Glitni og 33% af atkvæðisrétt í bankanum. Hann réð í raun yfir bankanum.

Á þeim tíma sem Jón Ásgeir hóf að auka hlut sinn í Glitni, í apríl 2006, var Jón Sigurðsson, sem var aðstoðarforstjóri FL-Group á þessum tíma, valinn í stjórn Glitnis. Ári síðar hafði Jón Ásgeir náð yfirráðum í stjórn Glitnis.

Þann 30. apríl 2007 var boðað til auka hluthafafundar hjá Glitni. Þar fór stjórn bankans, sem hafði verið skipuð einungis tveimur mánuðum áður, frá að mestu. Á fundinum voru fimm nýir einstaklingar skipaðir í stjórn Glitnis. Stjórnarmenn Glitnis voru eftir hluthafafundinn: Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður en hann var einnig varaformaður stjórnar FL-Group. Jón Sigurðsson, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Pétur Guðmundarson lögmaður hjá Logos, Björn Sveinsson, forstjóri Saxbygg, Haukur Guðjónsson og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis.

Þennan sama dag var Lárus Welding fenginn til starfa hjá Glitni. Segir í stefnunni að Jón Ásgeir hafi þar með haft sinn mann við stjórnvölinn í Glitni og meðal annars stýrt Lárusi með því að senda honum tölvupósta þar sem Lárus var upplýstur um hvernig hann ætti að standa að stjórn bankans.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í stefnu Glitnis en hún er hér í heild.

Hannes Smárason
Hannes Smárason mbl.is/Ómar Óskarsson
Lárus Welding
Lárus Welding mbbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
Ingibjörg Pálmadóttir
Ingibjörg Pálmadóttir mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson mbl.is/Ómar Óskarsson
Pálmi Haraldsson.
Pálmi Haraldsson. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson mbl.is/Kristinn Ingvarsson
PricewaterhouseCoopers.
PricewaterhouseCoopers. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert