Hæstiréttur tók ekki fyrir í dag kæru vegna gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir Ingólfi Helgasyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi en Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði Ingólf í gærkvöldi í viku gæsluvarðhald að kröfu sérstaks saksóknara.
Á morgun er uppstigningardagur, sem er frídagur, og því mun Hæstiréttur í fyrsta lagi fjalla um kæruna á föstudag. Jóhannes Bjarni Björnsson, lögmaður Ingólfs, segist gera ráð fyrir að rétturinn taki afstöðu til málsins þá.
Hæstiréttur staðfesti í vikunni úrskurði héraðsdóms um 12 daga gæsluvarðhald yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og 7 daga gæsluvarðhald yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg.