Heimsóknum á mbl.is fjölgar

Heimsóknum á mbl.is hefur fjölgað síðustu mánuði samkvæmt fjölmiðlakönnun Capacent. Þá hefur lestur á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu aukist frá síðustu könnun, sem birt var í febrúar.

Samkvæmt könnuninni heimsóttu 59,3% þátttakenda mbl.is daglega og 78,7% heimsóttu vefinn einhverntímann í könnunarvikunni. Í síðustu könnun, sem birt var í febrúar, sögðust 56,3% heimsækja vefinn daglega og 78,2% heimsóttu vefinn einhvern tímann í vikunni.

Meðallestur á hvert tölublað Morgunblaðsins var 34,8% í könnuninni nú en var 32,3% í síðustu könnun. Meðallestur á hvert eintak Fréttablaðsins var 64% nú en var 62,7% í síðustu könnun. 57,7% sögðust eitthvað hafa lesið í Morgunblaðinu í vikunni samanborið við 57,8% síðast og 81,6% sögðust hafa lesið eitthvað í Fréttablaðinu samanborið við 82,1% í síðustu könnun.

Um var að ræða samfellda dagblaða- og netmiðlamælingu frá 1. febrúar til 30. apríl. Úrtakið var 4800 Íslendingar á aldrinum 12-80 ára, valdir með tilviljunaraðferð úr þjóðskrá. Endanlegt úrtak var 4591 og fjöldi svara: 2792 eða 60,8%. Svörum var safnað jafnt yfir mælitímabilið.

Mbl.is er eini vefurinn, sem tekur þátt í fjölmiðlakönnun Capacent og Morgunblaðið og Fréttablaðið eru einu blöðin sem taka þátt í könnuninni.  

Fjölmiðlakönnun Capacent

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert