Fréttaskýring: Kerfisbundið og skipulagt

„Mjög umfangsmikil, kerfisbundin og skipulögð.“ Þannig lýsir sérstakur saksóknari meintri markaðsmisnotkun Kaupþingsmanna í greinargerð með gæsluvarðhaldskröfu yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg. Einnig segir að mál af þessari stærðargráðu eigi sér ekki hliðstæðu í rannsóknum sakamála hér á landi og þótt víðar væri leitað, hvað fjárhagslega hagsmuni varðar.

Líkt og alkunna er sitja þeir Magnús og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, í gæsluvarðhaldi. Magnús er grunaður um aðild að stórfelldum og kerfisbundnum efnahagsbrotum í starfi sínu og er þeim lýst nánar í fimm köflum.

 Losaði bankann við eigin bréf

Upp hafi safnast eigin bréf umfram lögbundin 10% á tímabili, og hinn 8. október 2008 voru eigin bréf bankans komin upp í 92% af heildarverðbréfasafni eigin viðskipta.

Sérstakur saksóknari telur rökstuddan grun um að viðskipti með eigin bréf hafi verið stunduð með kerfisbundnum og skipulögðum hætti yfir langt tímabil til að hafa áhrif á verð hlutabréfanna.

Magnús er talinn hafa, fyrir hönd Kaupþings í Lúxemborg, átt aðild að viðskiptunum með því að koma á viðskiptum með eigin hlutabréf bankans til að losa bankann við þau.

Einnig eru til rannsóknar lán Kaupþings til félaganna Trenvis Limited, Holly Beach S.A., Charbon Capital Ltd. og Harlow Equities SA, samtals að fjárhæð 260 milljónir evra vegna kaupa félaganna Chesterfield United Inc. og Partridge Management Group á skuldabréfum tengdum skuldatryggingaálagi Kaupþings. Þá lánaði Kaupþing tveimur síðastnefndu félaganna til að mæta veðköllum frá Deutsche Bank vegna kaupanna, og komu lánin til eftir veitingu Seðlabanka Íslands á 500 milljóna evra neyðarláni til Kaupþings.

Upplýsingar eru um að Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson hafi tekið ákvarðanir um umrædd viðskipti. Rannsóknin beinist m.a. að því hvernig var staðið að ákvörðunum af hálfu umræddra félaga sem virðast hafa verið óvirkir milliliðir í viðskiptum milli Kaupþings og Deutsche Bank.

Fjármagnsfærslur Kaupþings til félaganna Marple Holdings SA og Lindsor Holdings Corporation, kaup félaganna á skuldabréfum útgefnum af Kaupþingi á árinu 2008 og skjalagerð vegna þessara viðskipta eru einnig til rannsóknar en Marple Holding var í eigu Skúla Þorvaldssonar

Um var að ræða framvirka samninga og talið að tilgangur viðskiptanna hafi verið að flytja áhættuna af fallandi verðgildi skuldabréfa af Marple Holdings SA og lykilstarfsmönnum Kaupþings í Lúxemborg yfir á Kaupþing banka á Íslandi.

Gögn bendi sterklega til þess að skjöl vegna viðskiptanna hafi verið útbúin og undirrituð eftir fall bankans og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kaupþings og þá skilanefndarmaður Kaupþings, hafi haft milligöngu um frágang skjalanna, en þau virðast fölsuð bæði hvað varðar efni og dagsetningar.

Kaup Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi eru einnig til rannsóknar, en þá voru veittar lánafyrirgreiðslur til félaga í eigu Ólafs Ólafssonar og Sheiks Al-Thani.

Í greinargerðinni segir að tjón hluthafa, kröfuhafa, ríkissjóðs og samfélagsins hafi orðið mun meira en ella vegna hinna meintu brota.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert