Mikill mannfjöldi í héraðsdómi

Mikill mannfjöldi er í húsi héraðsdóms.
Mikill mannfjöldi er í húsi héraðsdóms. mbl.is/Ómar

Mikill mannfjöldi er saman kominn í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem fyrirtaka er í máli eins af nímenningunum, sem ákærðir voru fyrir brot gegn Alþingi og fleiri hegningarlagabrot. Fólkið vildi fá að fara inn í dómssalinn en lögregla gætti þess að ekki færu fleiri inn en sæti eru fyrir.

Til einhverra stimpinga kom milli lögreglu og viðstaddra og mun einn hafa verið handtekinn. Í upphafi réttarhaldsins buðust nímenningarnir til að standa í réttarsalnum svo fleiri fengju sæti en á það var ekki fallist.

Fyrirtakan var vegna þess að einn af sakborningunum hafði ekki tekið formlega afstöðu til ákærunnar. Að sögn Snorra Páls Jónssonar, eins af sakborningunum, lýsti umræddur einstaklingur því yfir að ákæran væri röng.

Snorri Páll sagði, að Ragnar Aðalsteinsson, sem er lögmaður tveggja sakborninganna, hefði í upphafi dómhaldsins krafist þess að óeinkennisklæddir lögreglumenn hættu að gæta dyra dómssalarins og og stýra réttarhaldinu. Þá krafðist hann þess einnig að lögreglumenn hættu að telja fólk inn í salinn þannig að réttarhöldin gætu farið fram fyrir opnum tjöldum. 

Snorri Páll sagði, að ekki hefði verið um að ræða skipulagðar aðgerðir heldur hefði fólk ræðst við á samskiptasíðum á netinu og blöskrað harðar aðgerðir sem lögregla greip til þegar fyrirtaka var í málinu fyrir skömmu. Því hefði fólk fjölmennt nú í dóminn.

Dómari sat undir svívirðingum

Dómþingið sjálft var stutt enda enginn vinnufriður í sal 101. Ekki aðeins voru ólæti fyrir utan salinn sem trufluðu heldur einnig inni í honum þar sem sakborningar höfðu sig sumir hverjir mikið frammi. Meðal annars jusu þeir svívirðingum yfir dómara málsins, Pétur Guðgeirsson, ákærendur og óeinkennisklæddu lögreglumennina.

Pétur lét svívirðingarnar lítið á sig fá. Bað sakborninga um að gefa hljóð en þegar það fékkst ekki var lítið annað að gera en slíta dómþingi. Lítið var gert að þessu sinni, og ekki ákveðin dagsetning á næstu fyrirtöku.

Þegar lætin voru hvað mest ýtti fólkið fyrir utan á hurð dómsalsins þannig að brestir heyrðust. Hlupu þá tveir sakborninga til og ætluðu að opna hurðina. Þegar lögregla tók fyrir það kom til stimpinga, en átök urðu ekki. 

mbl.is/Ómar
Einn mótmælandi var handtekinn.
Einn mótmælandi var handtekinn. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka