Óskað eftir kyrrsetningu hér

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar

Glitnir hefur farið fram á að eignir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Pálma Haraldssonar og Lárusar Welding verði kyrrsettar á Íslandi. Hljóðar krafan upp á sex milljarða króna. Er það sama fjárhæð og eignir Jóns Ásgeirs eru kyrrsettar víðsvegar um heiminn. Breskur dómari staðfesti kyrrsetninguna í gær og ef Jón Ásgeir fer ekki að kröfum dómarans þá hann yfir höfði sér fangelsisdóm í Bretlandi.

Á sér enga hliðstæðu

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður skilastjórnar Glitnis, segir að þetta mál eigi sér enga hliðstæðu á Íslandi og sé það stærsta sem komið hafi upp. Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag.

Samkvæmt kyrrsetningarúrskurðinum í Bretlandi er Jóni Ásgeiri óheimilt að eiga viðskipti með eignir sínar hvar sem er í heiminum að fjárhæð allt að sex milljörðum króna. Ef hann brýtur gegn því á hann á hættu að verða fangelsaður af breskum yfirvöldum. Samkvæmt úrskurðinum ber honum að leggja fram lista um eignir sínar innan tveggja sólarhringa. Geri hann það ekki gætu bresk yfirvöld fangelsað hann. 

Ekki ljóst hvort óskað verður eftir frekari kyrrsetningum

Staðfestingarmál vegna kyrrsetningarinnar verður tekið fyrir í breskum réttarsal  28. maí nk. Steinunn sagði, að hugsanlega yrði fyrirtökunni þó frestað en hún sagðist reikna með að Jón Ásgeir taki til varna.

Á Íslandi er kyrrsetningarbeiðnin hjá sýslumanninum í Reykjavík en að sögn Steinunnar er það gert til þess að  koma í veg fyrir að Jón Ásgeir, Pálmi Haraldsson og Lárus Welding ráðstafi eignum sínum hér á Íslandi. Varðandi aðra aðila málsins var það mat Glitnis að óska ekki eftir kyrrsetningu að svo stöddu. Það sé hins vegar ekki meitlað í stein.

Auk þess hefur skilanefnd Glitnis tilkynnt sérstökum saksóknara um rannsókn fjármálarannsóknarfélagsins Kroll og var það gert síðasta föstudag. Það er hlutverk slitastjórnar að endurheimta fé eftir þeim leiðum sem í boði eru, segir Steinunn. Ef hún verður hins vegar vör við mögulega refsiverða starfsemi þá ber henni að tilkynna til saksóknara og það er þá í hans höndum að kanna hvort brot hafi verið framin

Viðbrögð Jóns Ásgeirs í viðtali við Pressuna þar sem hann segir að Steinunn eigi yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi komu Steinunni svo sem ekki á óvart. Sagðist hún ekki hafa átt von á að hann yrði ánægður.

Skaðabótamál slitanefndar Glitnis gegn sjö einstaklingum og endurskoðunarfyrirtækinu PricewaterhouseCoopers er höfðað í New York vegna skuldabréfaútboðs, sem fór fram í New York árið 2007.  Fór kynning á útboðinu fram í New York í byrjun september 2007 þegar Glitnir opnaði útibú bankans formlega þar. Var það í höndum Þorsteins Jónssonar, þáverandi formanns stjórnar Glitnis og Lárusar Welding, forstjóra Glitnis. Jón Ásgeir var sjálfur ekki viðstaddur opnun Glitnis í New York en eiginkona hans, Ingibjörg Pálmadóttir var þar á meðal gesta.

Meðal þeirra sem voru viðstaddir opnun Glitnis í New York var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ásamt fjölmörgum frammámönnum í íslensku þjóðlífi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka