Pálmi Haraldsson segir að hann hafi aldrei setið í stjórn Glitnis líkt og komi fram í tilkynningu frá Glitni varðandi málsókn á hendur honum í New York. Pálmi segir augljóst að málsókn gegn honum sé byggð á misskilningi og vanþekkingu. Þess má geta að Pálmi sat í stjórn FL-Group en í málsókn Glitnis er fjallað um hvernig almenningshlutafélagið FL-Group var nýtt til þess að ná yfirráðum yfir Glitni.
Yfirlýsing Pálma:
„Í gær birtust fréttir þess efnis að slitastjórn Glitnis banka hf. hefði höfðað mál á hendur mér og fleiri aðilum fyrir dómstól í New York ríki í Bandaríkjunum. Í fréttatilkynningu slitastjórnar Glitnis banka hf. kemur fram að mér sé stefnt sem fyrrum stjórnarmanni í Glitni banka hf. og krafist er kyrrsetningar á eignum mínum á Íslandi. Vegna þess er rétt að taka fram að ég hef aldrei verið stjórnarmaður í Glitni banka hf., ég bauð mig aldrei fram til stjórnarsetu í bankanum, ég sat aldrei stjórnarfundi í bankanum, né kom ég að ákvörðunum um fjármögnun bankans eða öðrum ráðstöfunum hans. Málssóknin gegn mér er því augljóslega byggð á misskilningi og vanþekkingu slitastjórnar Glitnis banka hf. á því hverjir sátu í stjórn bankans – sú staðreynd ein og sér er með ólíkindum.
Af þessu tilefni hef ég nú í morgun sent formanni slitastjórnar Glitnis banka hf. meðfylgjandi bréf þar sem þess er krafist að fallið verði frá boðuðum aðgerðum gegn mér án tafar. Málssókn þessi er tilhæfulaus með öllu og gerð í þeim augljósa tilgangi að setja stefndu í þá stöðu að geta ekki varið sig."