„Hvað á maður að segja í sjálfu sér. Þetta er bara galið,“ sagði Pálmi Haraldsson, gjarnan kenndur við Fons, þegar stefnan á hendur honum vegna meintrar sviksemi í rekstri Glitnis var borin undir hann fyrir stundu.
Jóni Ásgeiri Jóhannessyni er stefnt vegna hinna meintu svika sem hljóða upp á 258 milljarða króna, rúmlega sjöttung þjóðarframleiðslu Íslands í fyrra, og er Pálmi einn tengdra aðila sem einnig er stefnt.
Þarf ekki annað en að lesa stefnuna
- Hvers vegna telurðu málið galið?
„Það getur hver maður sagt þér það sjálfur. Það þarf nú ekki annað en að lesa stefnuna.“
- Af hverju?
„Það er bara absúrd að ég hafi komið nálægt rekstri þessara banka. Þetta er varla svara vart einu sinni.“
- Telurðu því að stefnandi hafi unnið heimavinnuna illa?
„Bara mjög illa.“
- Hvernig hyggstu bregðast við þessu?
„Það bara kemur í ljós. Ég er reyndar ekki stór í þessari stefnu en ég meina ég hef aldrei verið stjórnarmaður í FS38 og ég var ekki stjórnarformaður Fons. Þetta er ekki eitt, þetta er allt.
Í fréttatilkynningunni kemur fram að ég sé stjórnarmaður í Glitni. Það er sagt að ég hafi líka farið fyrir breska dómstóla sem stjórnarmaður í Glitni. Ég hef aldrei nokkurn tímann setið aðalfund Glitnis, verið í stjórn Glitnis eða setið stjórnarfund í Glitni. Þetta segir sig sjálft.“
Kannast ekki við málarekstur í Bretlandi
- Þú vísar því tilvísun stefnunnar í málarekstur fyrir breskum dómstól á bug?
„Já, algjörlega. Þetta er út í hött.“
- Heldur stefnandi því fram að það hafi verið tekið upp mál gegn þér fyrir breskum dómstól?
„Ég hef ekkert séð þetta breska dæmi. Það kemur fram í fréttatilkynningunni, á síðu 4. Ég er eins og hver annar að lesa þetta í fréttatilkynningunni [...] Það kemur fram á síðu 4 í fréttatilkynningunni að mér hafi verið stefnt sem stjórnarmanni í Glitni.“
- Telurðu stefnuna því fráleita með ofangreind atriði í huga?
„Þetta er bara fráleit stefna að öllu leyti.“
- Þú ert nafngreindur ásamt nokkrum þjóðþekktum einstaklingum. Hvað finnst þér um þau vinnubrögð að setja þetta fram svona?
„Ég get bara svarað fyrir mína hönd. Mér finnst þetta bara fáranlegt [...] Maður myndi nú ætlast til þess að vinnubrögðin væru betri.“