Segir rannsóknargeggjun ríða yfir þjóðfélagið

Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurður G. Guðjónsson. mbl.is/Ásdís

Í bréfi, sem Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Pálma Haraldssonar, hefur sent formanni slitastjórnar Glitnis, segir að vinnubrögð slitastjórnarinnar séu enn ein sönnun þeirrar rannsóknargeggjunar, sem nú ríði yfir íslenskt þjóðfélag.

Í bréfinu krefst Sigurður þess, að slitastjórnin falli frá boðuðum aðgerðum gegn Pálma fyrir blaðamannafund, sem boðaður hefur verið klukkan 14:30 í dag.

„Verði slitastjórn Glitnis ekki við þessari kröfu og sendi út fréttatilkynningu um að boðaðar málssóknir beinist ekki gegn Pálma Haraldssyni mun hann fela breskum og bandarískum lögmönnum að gæta hagsmuna sinna vegna málssókna slitastjórnar Glitnis, málssókna sem hann hefur aðeins fengið vitneskju um gegnum fjölmiðla. Samkvæmt íslenskum rétti eru fjölmiðlar ekki lögmætir stefnuvottar," segir m.a. í bréfinu.

Í tilkynningu frá slitastjórn Glitnis, sem send var út í nótt, segir, að mál, sem höfðað var fyrir dómi í New York í gær, beinist meðal annars að Pálma Haraldssyni, sem hafi verið stjórnarmaður í Glitni baka. Þá hefur slitastjórnin einnig krafist kyrrsetningar á eignum Pálma.

Í stefnunni, sem dómtekin var í gær, kemur hins vegar fram að Pálmi hafi verið varaformaður stjórnar FL Group á árunum 2007 og 2008 og einnig verið stjórnarformaður Fons og annars fyrirtækis, FS38, en bæði félögin voru stórir hluthafar í FL Group.

Í yfirlýsingu frá Pálma í dag kemur fram, að hann hafi aldrei verið stjórnarmaður í Glitni banka hf., hann hafi aldrei boðið sig fram til stjórnarsetu í bankanum, aldrei setið stjórnarfundi í bankanum eða komið að ákvörðunum um fjármögnun bankans eða öðrum ráðstöfunum hans.

„Málssóknin gegn mér er því augljóslega byggð á misskilningi og vanþekkingu slitastjórnar Glitnis banka hf. á því hverjir sátu í stjórn bankans – sú staðreynd ein og sér er með ólíkindum," segir í tilkynningu frá Pálma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert