Sérlega gróf og alvarleg brot

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann í 8 ára fangelsi fyrir  fjölmargar líkamsárásir og sérlega gróf og alvarleg kynferðisbrot gegn þáverandi sambúðarkonu sinni. Maðurinn var dæmdur til að greiða konunni 3 milljónir króna í bætur.

Manninum var meðal annars gefið að sök að hafa í október 2006 til júní 2007, á heimili þeirra í Danmörku, veist ítrekað að konunni með barsmíðum og veitt henni áverka. Þá var maðurinn sakfelldur fyrir að hafa neytt konuna með hótunum til samræðis og annarra kynferðismaka með öðrum körlum, en maðurinn ýmist ljósmyndaði kynmökin eða tók þau upp á myndband og tók iðulega þátt í þeim. 

Maðurinn var hins vegar sýknaður af ákæru um að hafa veist að föður sínum. Foreldrar mannsins gáfu hvorki skýrslu fyrir lögreglu né héraðsdómi, en nágranni þeirra, sem kom á vettvang eftir að hafa orðið var við háreysti frá húsi þeirra um nóttina, kom á hinn bóginn fyrir dóm. Taldi Hæstiréttur, að gegn neitun mannsins væri framburður þessa eina vitnis ekki nægur til sakfellingar.

Hæstiréttur segir, að við ákvörðun refsingar hafi meðal annars litið til þess að maðurinn hefði gerst sekur um fjölmargar líkamsárásir og sérlega gróf og alvarleg kynferðisbrot gegn þáverandi sambúðarkonu sinni. Brotin stóðu yfir um árabil og afleiðingar þeirra fyrir konuna væru alvarlegar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert