Spurt um kynjaða fjárlagagerð

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, beindi fyrirspurn til Steingríms J. Sigfússonar, til fjármálaráðherra um kynjaða hagstjórn. Þannig vildi Eygló vita hvernig staðið var að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar við fjárlagagerð ársins 2010. Óskaði hún sérstaklega eftir dæmum um ákvarðanir við fjárlagagerðina þar sem tillit var tekið til kynjasjónarmiða. Jafnframt vildi hún vita hvernig ætlunin væri að standa að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar við fjárlagagerð ársins 2011.

Eygló benti á að við síðustu fjárlagagerð hafi sparnaðarkrafan á fjarnám komið harkalegast niður á kvenkyns nemendum þegar að var gáð.

Steingrímur þakkaði fyrirspurnina. Minnti hann á verkefnastjórn um kynjaða hagstjórn hafi verið skipuð í apríl á síðasta ári. Sökum þessa hafi kynjuð hagstjórn ekki fengið það vægi sem til hafi verið ætlast fyrir fjárlögin 2010, en samkonulag væri um að meira tillit væri tekið til þess í fjárlögin 2011.

Að sögn Steingríms skilaði verkefnastjórnin áfangaskýrslu í mars sl. þar sem sé að finna góða leiðsögn um það hvaða aðferðarfræði sé að baki og hvernig innleiða eigi hana. Sagði hann að í einfeldni sinni snérist verkefnið um að útdeila fjármunum þannig að það stuðli að jafnrétti. Sem dæmi um útfærslu nefndi Steingrímur að hvert ráðuneyti skyldi koma með tillögu að sérstöku tilraunaverkefni sem komi skal til framkvæmda 2011.

Sagði hann ljóst að veita þyrfti aðilum sem taka munu þátt í tilraunaverkefnunum ráðgjöf og fræðslu. Til þess að sinna því var ráðin verkefnastjóri í tímabundið starfs og vísaði þar til Katrínar Önnu Guðmundsdóttur viðskiptafræðings og jafnréttishönnuð.

Steingrímur lagði áherslu á að kynjuð fjárlagagerð væri ekki eitthvað sem hægt væri að hrista fram úr erminni á stuttum tíma, enda þyrfti að breyta hugsunarhætti. Vísaði hann í því samhengi til reynslu Finna. Sagði hann það stefnuna til lengri tíma litið að ávallt væri tekið tillit til kynjaðrar fjárlagagerðar við vinnslu fjárlaga á komandi árum.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks. nýtti tækifærið til að hvetja fjármálaráðherra áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið um kynjaðra fjárlagagerð. Rifjaði hún upp að hún hefði á sínum tíma beint þeirri fyrirspurn til þáverandi forsætisráðherra Geirs H. Haarde hvort innleiða ætti kynjaða fjárlagagerð hérlendis sambærilega við það sem löngum hefur þekkst í Noregi.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með fjármálaráðherra um að innleiðing kynjaðrar fjárlagagerðar tæki tíma enda þyrfti að kenna fólki að hugsa með nýjum hætti. Minnti hún á að nú um stundir væru liðinn aldarfjórðungur síðan fyrst var byrjað að tala fyrir kynjaðri fjárlagagerð í sölum Alþingis, en það gerðu þingmenn Kvennalistans. Sagði hún afar mikilvægt að hafa ávallt í huga hver áhrif ákvarðana séu á kynin.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert