Kemur til álita að fallast á að hverfa frá núgildandi landbúnaðarstefnu, heimila innflutning á lifandi dýrum og aflétta tollvernd gagnvart landbúnaðarafurðum, samanber álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 24. febrúar sl.? Svo hljóðaði fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar til Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á þingi fyrr í dag.
Jón rifjaði upp hvar í samningaferlinu Íslendingar væru staddir. Benti hann á að Ísland uppfyllti skilyrði fyrir viðræðum, en formleg ákvörðun ráðherraráðsins þar um hafi ekki verið tekin. Las hann í framhaldinu upp úr bókunum Bændasamtaka Íslands og nefndaráliti utanríkismálanefndar Alþingis frá síðasta ári.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, gagnrýndi í framhaldinu ráðherra fyrir að svara ekki spurningu Einars heldur lesa einfaldlega upp úr nefndarálitum sem þingmenn væru löngu búnir að kynna sér.
Einar sjálfur gagnrýndi einnig ráðherra fyrir að svara sér ekki. „Mér var engan veginn ljóst hvað ráðherra var að fara? Kjarni málsins er einfaldur. Ef við föllumst á álit framkvæmdastjórnar ESB þá hefði það gríðarlega alvarleg áhrif á íslenskan landbúnað,“ sagði Einar og benti á að ekki væri hægt að semja sig frá þessum skilyrðum framkvæmdastjórnar ESB. Ítrekaði hann að hann vildi fá um það skýr svör frá ráðherra hvort hann væri tilbúinn til þess að víkja stefnu og hagsmunum Íslendinga til hliðar.
Ráðherra sagði ekki koma til greina að víkja frá þeim skilyrðum sem fram voru sett í fyrrgreindu nefndaráliti utanríkismálanefnd og þingsályktunum. Minnti hann á að hann hefði greitt atkvæði gegn aðildarumsókn og ítrekaði að stór hluti Vinstri grænna væru á móti aðild að ESB. Sagði hann það alveg ljóst að innan sjávar- og landbúnaðarráðuneytinu væri mesta andstaðan gegn aðild að ESB, en hins vegar ynni hann sem ráðherra auðvitað eftir vilja þingsins.
Einar gerði í framhaldinu athugasemd við að ráðherra hefði ekki svarað sér efnislega fyrr en í seinni umferð sem gerði það að verkum að sér væri gert ókleift að bregðast við samkvæmt þingsköpum, en Einars kom fram með þessa athugasemd undir liðnum fundarstjórn forseta. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, starfandi forseti Alþingis, minnti á að það væri alfarið á ábyrgð ráðherra hvernig þeir kysu að svara fyrirspurnum.