Aska úr eldgosinu í Eyjafjallajökli selst eins og heitar lummur á vefnum nammi.is. Segir Sófus Gústavsson, eigandi nammi.is í viðtali við AFP fréttastofuna að askan hafi selst til sextíu landa frá því byrjað var að selja öskuna fyrir tíu dögum síðan.
Fyrirspurnir hafa borist frá 133 löndum og tæplega milljón gestir hafa sótt síðuna heim. Kostar 160 gramma askja með ösku 23,80 evrur, 3.900 krónur. Allt byrjaði þetta með því að einn viðskiptavina nammi.is óskaði eftir því við fyrirtækið að það útvegaði honum ösku úr eldgosinu.
Faðir Sófusar býr í nágrenni gossins og hann hefur séð um að sækja ösku fyrir vefverslunina. Hann hefur í þrígang farið í öskuleiðangur og er hún aldrei eins á milli ferða.
Þrátt fyrir góða sölu þá ætlar Sófus ekki að hagnast á sölunni heldur rennur söluandvirðið til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Hann telji ekki rétt á að hagnast á einhverju sem hefur valdið fólki, til að mynda bændum á svæðinu hörmungum.