Sjómenn ekki með skarðan hlut frá borði í Gildi

Frá ársfundi Gildis.
Frá ársfundi Gildis. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, hefur sent Sjómannafélagi Íslands svar við bréfi þess frá 29. apríl, þar sem Sjómannafélagið krafðist afsagnar stjórnar og framkvæmdastjóra Gildis.
Kemur þar fram að réttindi sjómanna í Gildi hafi hækkað um 1,9% umfram hækkun vísitölu neysluverðs á tímabilinu janúar 2005 til apríl 2010, að teknu tilliti til 7% lækkunar réttinda nú.

„Hrun fjármálakerfisins á Íslandi í október 2008 hefur haft mikil áhrif á afkomu Gildis eins og annarra lífeyrissjóða og fjárfesta og því miður hefur Gildi eins og margir aðrir lífeyrissjóðir þurft að grípa til lækkunar réttinda. Það vill hins vegar gleymast að Gildi hækkaði réttindi um 7% árið 2006 og um 10% árið 2007. Þá fengu sjómenn 4,1% réttindahækkun við stofnun Gildis árið 2005. Þessar hækkanir eru umfram hækkun vísitölu neysluverðs sem lífeyrisgreiðslur miðast við,” segir í svarbréfinu.

Á ársfundi Gildis 28. apríl sl. var borin upp tillaga Jóhanns Páls Símonarsonar um að stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóri segðu af sér. Fram kemur í bréfinu að tillagan var felld með öllum greiddum atkvæðum. Þrír fulltrúar Sjómannafélags Íslands sátu fundinn, þ. á m. formaður félagsins, Helgi Kristinsson og greiddi enginn þeirra atkvæði með tillögunni.

„Ástæða er til að benda á að Sjómannafélag Íslands (áður Reykjavíkur) átti ávallt fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna og bera þeir fulltrúar sömu ábyrgð á fjárfestingum sjóðsins og aðrir stjórnarmenn. Auk þess sat framkvæmdastjóri félagins, Birgir Hólm Björgvinsson, í stjórn Gildis í tvö ár, frá apríl 2006 til apríl 2008.

hBæði árin sem Birgir sat í stjórn samþykkti hann fjárfestingarstefnu sjóðsins og undirritaði ársreikninga án athugasemda og aldrei gerði hann athugasemdir við fjárfestingar sjóðsins né fjárfestingarstefnu allan þann tíma sem hann sat í stjórninni,” skrifar Árni Guðmundsson í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert