Gylfi treystir íslenskum bankamönnum

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. Eggert/Eggert

SFF-dagurinn, ráðstefna á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja, var haldin í gær undir yfirskriftinni „Með traust að leiðarljósi.”

Gylfi Magnússon, efnahags og viðskiptaráðherra- hélt þar erindi. Sagðist hann þar treysta starfsmönnum hinna nýju íslensku banka til þess að sinna sínu verki vel, þegar bankarnir hafi fengið betri forystu og betri umgjörð frá hinu opinbera til þess að sinna hlutverki sínu.

Hann rifjaði þó upp ummæli sín þess efnis að íslenskir bankamenn hefðu verið þeir verstu í heimi fyrir bankahrun. Hann sagðist standa við þau ummæli en um leið að þar væri átt við þá sem voru í brúnni fyrir hrun. ,,Við eigum ekki að líta svo á að þeir sem voru í áhöfninni á Títanic og réðu engu um kúrsinn eða hvernig skipið var hannað, beri ábyrgð á því hvernig fór. Flestir voru að sinna sínum störfum af kostgæfni og alúð og bera ekki ábyrgðina á atburðarásinni og gátu engu breytt um hana,“ segir Gylfi.

„Það hversu þó hefur gengið vel að halda þessu bankakerfi gangandi þrátt fyrir sviptingar sem eiga sér engin fordæmi, hvorki í Íslandssögunni né í veraldarsögunni, sýnir fram á að það var mikið af mannauði og þekkingu og reyndar líka tæknikerfum og öðru slíku innan bankanna, sem var í grundvallaratriðum í lagi. Við munum auðvitað byggja á þessu í nýja bankakerfinu,“ sagði Gylfi einnig. Flest bankafólk væri bara venjulegir Íslendingar, sem reyndu að sinna sínum störfum vel.

Gylfi sagðist telja að nýju bankarnir séu heilbrigðar stofnanir með heilbrigðan efnahagsreikning í grundvallaratriðum. Samt eigi þeir við gríðarleg viðfangsefni eða vandamál að etja. Þó að efnahagsreikningarnir séu heilbrigðir séu þeir uppfullir af eignum sem þurfi að vinna úr.

„Skaflinn af slíkum verkefnum sem þarf að moka í gegn núna er ótrúlegur, en hér erum við og þetta er verkefnið sem er framundan. Það er ekkert annað inni í myndinni heldur en að ganga í þetta og leysa þetta,“ sagði Gylfi.

Ræðumenn á ráðstefnunni, auk Gylfa, voru Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar, Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Lilja Ólafsdóttir formaður stjórnar FME, og Birna Einarsdóttir, formaður SFF. Ráðstefnustjóri var Margrét Kristmannsdóttir formaður SVÞ.

Upptökur af ræðum og glærur frá ráðstefnunni má finna hér, á vef SFF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert