Minna Álfheiði á heilsugæsluna

Álfheiður Ingadóttir.
Álfheiður Ingadóttir.

Fjórir íbúar á Blönduósi hafa ritað Álfheiði Ingadóttur heilbrigðisráðherra opið bréf, vegna þess mikla niðurskurðar sem heilbrigðisstofnunin á Blönduósi er að verða fyrir.

Segir fólkið að þrír mánuðir séu liðnir síðan hópur fólks mætti fyrir framan heilbrigðisstofnunina á Blönduósi, til að mótmæla þeim mikla niðurskurði sem lagður var á stofnunina. Álfheiður hafi lofað því að málið yrði skoðað. Ekkert hafi hins vegar gerst í málinu.

„Það virðist kannski ekki vera svo langt síðan, en svo er nú enga síður raunin Álfheiður, tíminn líður hratt og mörgu er að sinna, en þó þú kunnir að vera búin að gleyma, þá höfum við engu gleymt!

Við munum ennþá eftir því loforði sem þú gafst okkur fyrir framan heilbrigðisstofnunina fyrir framan fjölda fólks, þess efnis að yfir þetta mál yrði farið og kallaðir yrðu til þingmenn kjördæmisins og framkvæmdastjórinn og í sameiningu farið yfir þessi mál. Við vitum að þessi fundur var haldin en ekkert hefur gerst.

Þann 17.mars síðastliðinn sendum við þér og ráðuneyti þínu fyrirspurn og óskuðum eftir upplýsingum um hvernig gengi. Sennilega gengur ekki neitt, því engin eru svörin, eða hvað á maður að halda?

Við þetta verður ekki búið, nú viljum við fá svör Álfheiður, svona vinnubrögð geta ekki talist ásættanleg, eða hvað? Nú verður þú að sýna í verki að þú hunsir ekki óskir okkar og að við séum þess verð að á okkur sé hlustað.

Við munum láta rödd okkar heyrast og höldum áfram að mótmæla, því annars gerist ekkert, en eins og þú hefur bent á; Það Virkar!!!!

Að lokum skorum við á þingmenn að gleyma sér ekki, sinna því sem þeim ber fyrir sitt kjördæmi og fylgja þessu máli eftir af fullum þunga.

LÁTUM RÖDD OKKAR HEYRAST!“ segir í bréfinu til Álfheiðar. Undir það rita Bóthildur Halldórsdóttir, Einar Óli Fossdal, Margrét Hólmsteinsdóttir og Anna Kr. Davíðsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka