Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, tjáði Morgunblaðinu í gær að honum hefði ekki tekist að fá það gefið upp á hverju hin alþjóðlega handtökuskipun, sem gefin hefði verið út á hendur honum, byggðist.
Að öðru leyti veitti hann ekki viðtal en lét hafa eftir sér hjá sænska blaðinu Dagens Industri að íslensk stjórnvöld svöruðu ekki í símann þegar lögmaður hans reyndi að hringja og afla upplýsinga um málið. Handtökutilskipunin væri áróðursverk, gert í þeim tilgangi að búa til fyrirsagnir í fjölmiðlum. Kvaðst hann hafa boðist til að mæta í yfirheyrslur gegn því skilyrði að hann fengi að fara aftur til Bretlands að því loknu. „Slík skilyrði eru alvanaleg í aðstæðum sem þessum,“ sagði hann við sænska blaðið. Sagðist hann vera heima hjá sér í Chelsea og ekkert leynimakk væri í kringum staðsetningu hans. Rannsóknin og yfirheyrslurnar héldu áfram í gær. Ekki voru fleiri handtökur.