Yfirheyrslur halda áfram

Merki Kaupþings.
Merki Kaupþings. mbl.is/Ómar

Rannsókn embættis sérstaks saksóknar á efnahagsbrotum innan Kaupþings heldur áfram í dag og miðar áfram, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar. Ekki hefur verið gripið til fleiri þvingunarúrræða en yfirheyrlur hafa haldið áfram.

Aðspurður um málefni Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, sem eftirlýstur er af embættinu og Alþjóðalögreglunni Interpol, segir Ólafur að embættið geri þeim hluta málsins ekki hærra undir höfði en öðrum þáttum. Áfram sé bara unnið í því. Rannsóknaráætlunin geti tekið breytingum eftir því hvernig mál þróast hverju sinni. ,,Síðan taka menn bara þau skref sem þarf,” segir Ólafur en vill ekki tjá sig frekar um það.

Ólafur staðfestir að embættinu hafi einnig borist tilkynning frá Slitastjórn Glitnis síðasta föstudag, vegna málshöfðunarinnar í New York, gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fleiri eigendum og stjórnendum Glitnis fyrir hrun. Hann segir að málið hafi verið sett í ferli hjá embættinu og í framhaldinu verði skoðað hver fyrstu skrefin í því máli verði. Er hópur starfsmanna kominn með það mál í umsjá sína hjá embættinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert