Talsvert öskufall er ennþá í Landeyjum og þá einkum og helst á bæjum efst í sveitinni. Svo virðist sem tiltölulega mjór öskugeiri liggi frá Eyjafjallajökli og til vesturs, enda hefur lítil aska fallið á þeim bæjum í Landeyjum sem eru næstir sjó. Frést hefur af lítilsháttar öskufalli á suðvesturhorninu en Veðurstofan spáir öskufalli vestur af Eyjafjallajökli, allt að Faxaflóa.
„Ég er kominn hér út á tröppur og maður finnur á handabakinu hvernig askan fellur. Þetta er nú samt lítilsháttar og hefur ekki ollið neinum búsifjum. Í raun er ótrúlegt hve vel við hér í Landeyjunum höfum sloppið frá gosinu hingað til,“ sagði Jóhann Nikulásson bóndi í Stóru-Hildisey í samtali við Mbl.
Víða erum bændur í Landeyjum með mikið af útigangshrosum og hafa menn nokkrar áhyggjur af því, enda óhægt að koma öllu stóðinu á hús. Við slíkar aðstæður reyna bændur samkvæmt ráðum dýralækna þá að koma hrossunum fyrir í þröngum hólfum, þar sem þau hafa aðgang að heyi og rennandi vatni
Rigningu sem var í Landeyjum í morgun hefur nú slotað og því fellur þar ekkert nema askan, sem er frekar fínkorna.