Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði í ræðu sinni um utanríkismál á Alþingi að íslenska utanríkisþjónustan hefði skilað miklum árangri í deilum um Icesave og vinnu við efnahagsáætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sagðist hann vera stoltur af sínu fólki í utanríkisþjónustunni.
Sagði Össur að utanríkisþjónustan ætti að vera skjöldur fyrir Ísland. Hún hefði hins vegar gert sín mistök, líkt og fram hefði komið í rannsóknarskýrslu Alþingis, og læra þyrfti af þeim mistökum. Stjórnsýslan þyrfti að gæta sín á því í framtíðinni að utanríkisþjónustan væri hluti af öllum aðgerðum sem væri gripið til. Það væri nú eitt helsta hlutverk utanríkisþjónustunnar að byggja upp traust Íslands í samstarfi við erlend ríki, þannig að landið endurheimti orðspor sitt.
Össur vék að umsóknarferli Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu, ESB. Tekin hefði verið lýðræðisleg ákvörðun á Alþingi um að fara í það ferli, tekið hefði verið eitt skref í einu og Ísland tekið þau varlega. Össur sagði málið vissulega vera umdeilt en um starf samninganefndarinnar og samningahópanna hefði ríkt full samstaða, aðalsamningamaður Íslands væri einhver sá reyndasti sem völ væri á og hann nyti fulls trausts.
Fundargerðir verði birtar
Össur sagði mikilvægt að hafa umsóknarferlið opið og gegnsætt. Hefur utanríkisráðherra ákveðið að birta fundargerðir samninganefndarinnar og samningahópanna opinberlega. Einnig væri rétt að veita Íslendingum beina hlutdeild í umsagnarferlinu með því að opna gagnvirka vefsíðu, þar sem fólk gæti átt samræður við samninganefndarmenn og jafnvel ráðherra sjálfan. Íslendingar ættu að nýta kosti rafrænnar stjórnsýslu.
Einnig sagðist Össur vilja að samninganefndin myndi halda fundi um allt land, þar sem staðan í samningaviðræðunum yrði kynnt og rædd. Þar gæti almenningur fengið stöðu mála beint í æð og beint af kúnni, eins og hann orðaði það.
Sagðist Össur líta á Evrópumálin sem grundvöll í endurreisn Íslands, reyna þyrfti á hvað gæti falist í aðild, þörf væri á stöðugleika íslensku efnahagslífi og skapa fleiri störf. ESB væri umdeilt en besti kosturinn til að ná markmiðum um endureisna og aukinn stöðugleika. Íslenskum stjórnvöldum bæri skylda til að skapa samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir atvinnulífið. Evrópumálin snerust um atvinnu fyrir alla og aukna fjárfestingu. Einnig væri mikil þörf á öflugum gjaldmiðli, með aðild gætu Íslendingar um síðir tekið upp öflugan gjaldmiðil.
Geta haldið sínu í fiskveiðum
Össur sagði sjávarútvegs- og landbúnaðarmál vera erfiðuðustu málin fyrir Íslendinga í viðræðum við ESB. Hins vegar væri hægt að tryggja hagsmuni þessara atvinnugreina. Sagði Össur íslenskan sjávarútveg vera í fremstu röð og ESB myndi taka fullt tillit til sérstöku Íslands í fiskveiðum. Íslendingar gætu meira en haldið sínu innan ESB í þessum efnum.
Össur sagðist vera sveitarmaður í hjarta sínu sem gamall Mýramaður og ESB-aðild þyrfti ekki að vera erfið fyrir landbúnaðinn. Við myndum njóta smæðar markaðarins og sérstöðu líkt og Finnar. Landfræðileg einangrun og fleira myndi skapa Íslandi sterka stöðu, hér væri sterkt erfðamengi íslenskum landbúnaði sem skapaði sérstöðu.
Umræður fara nú fram á Alþingi um skýrslu utanríkisráðherra.