Velta í dagvöruverslun dróst saman um 11,7% á föstu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og um 3,5% á breytilegu verðlagi. Verð á dagvöru hækkaði um 9,3% á síðastliðnum 12 mánuðum. Þetta kemur fram í tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar á Bifröst.
Fataverslun var 13,8% minni í apríl miðað við sama mánuð í fyrra, velta skóverslunar minnkaði um 11% í apríl og húsgangaverslana svipað. Velta sérverslana með rúm minnkaði um 52,6% frá í fyrra á föstu verðlagi. Sala á raftækjum í apríl minnkaði um 13,3% á föstu verðlagi en verð þeirra hækkaði um um 8,6% milli ára.
Ástæðu þesss samdráttar má, segir Rannsóknarsetur verslunarinnar, að hluta til rekja til þess að páskaverslun fór fram í mars á þessu ári en í apríl í fyrra. Páskarnir skýra samt ekki alfarið þennan mikla mun. Þegar horft er til samanburðar á fyrri árum þegar páskar voru annað árið í mars og það næsta í apríl kom ekki fram þessi mikli munur á veltu milli ára.
Samdrátturinn í sölu áfengis er fordæmalítil.. Velta áfengisverslunar var 31,0% minni á föstu verðlagi í apríl síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra og hefur ekki verið minni í neinum aprílmánuði síðan árið 2002. Sala í áfengislítrum var 28,7% minni í nýliðnum aprílmánuði en í apríl í fyrra og er talin bein fylgni milli þess og verðhækkana.