Sannfærður um sakleysi sitt verði staðfest

Magnús Guðmundsson leiddir fyrir Hérðasdóm.
Magnús Guðmundsson leiddir fyrir Hérðasdóm. Eggert Jóhannesson

Magnús Guðmundsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, segist allt frá hruni íslensku bankanna hafa lagt sig fram um samstarf við íslensk yfirvöld um rannsókn þess. Hann segist sannfærður um að sakleysi sitt verði staðfest.

Magnús losnaði úr vikulöngu gæsluvarðhaldi í dag, en var jafnframt úrskurður í tveggja vikna farbann. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um rannsókn sérstaks saksóknara og gæsluvarðhaldið. Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Allt frá hruni íslensku bankanna hef ég lagt mig fram um samstarf við íslensk yfirvöld um rannsókn þess, á sama tíma og ég leiddi endurreisn banka þess sem ég veitti forstöðu í Lúxemborg.

Ég tel mikilvægt að það komi fram að við handtöku mína var ég staddur hér á landi sjálfviljugur í þeim eina tilgangi að mæta í yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara. Ég tel því að þvingunaraðgerðir þær sem sérstakur saksóknari beitir gegn mér hafi verið fullkomlega óþarfar, enda hef ég frá upphafi verið fús til samvinnu vegna þessa máls og mætt í allar boðaðar yfirheyrslur vegna þess. Liðnir eru 540 dagar frá því að Kaupþing banki á Íslandi féll og vandséð er hvernig rannsóknarhagsmunum er ógnað með frelsi mínu nú.
Þau mál sem til rannsóknar eru hjá sérstökum saksóknara beinast nær eingöngu að Kaupþingi banka á Íslandi. Undanfarin 12 ár hef ég starfað sem forstjóri Kaupþings Lúxemborg og síðar Banque Havilland. Gegndi ég því starfi með samþykki fjármálaeftirlits Lúxemborgar, sem endurnýjað var við endurskipulagningu bankans árið 2009 með fulltingi belgískra og lúxemborgískra yfirvalda.

Ljóst er að margt fór úrskeiðis í skipulagi fjármálafyrirtækja bæði á Íslandi og annars staðar á undanförnum árum. Ég tek fulla ábyrgð á mínum störfum og mun í engu víkjast undan henni.

Sú reynsla að sitja í gæsluvarðhaldi er nokkuð sem ég óska engum að þurfa að upplifa. Vistin ein og sér er þó ekki það versta. Ákvörðun um að hneppa einstakling í gæsluvarðhald er mikið áfall fyrir þann sem fyrir því verður, æru hans, fjölskyldu og stöðu í samfélaginu.

Ég lýsi því yfir að ég mun áfram sýna yfirvöldum fullan samstarfsvilja við að upplýsa málið, enda tel ég að þegar allt er fram komið þá muni sakleysi mitt verða staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert