Talsvert öskufall er nú í Vestmannaeyjum og segja heimamenn að þar sé dimmt yfir. Ekki er gert ráð fyrir að öskufallið standi lengi því spáð er norðanátt og þá fer askan austan við Eyjar, að því er kemur fram á vef Eyjafrétta.
Öskunni rignir niður í bland við smá úrkomu. Fram kemur á Eyjafréttum, að rykið sé afar fínt og smjúgi því inn um litlar glufur. Götuljósin loga nú í Vestmannaeyjum en ljósastaurarnir eru stilltir eftir birtustigi og er því engu líkara en það sé kvöld í Eyjum.
Lögreglan í Vestmannaeyjum bendir fólki á að halda sig innandyra á meðan öskuskýið gengur yfir Vestmannaeyjar.