Sigurður ræður breskan lögmann

Sigurður Einarsson.
Sigurður Einarsson.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur ráðið kunnan breskan lögmann sem er sérfræðingur í vörnum í  svonefndum hvítflibbamálum.

Lögmaðurinn heitir Ian Burton. Blaðið Daily Telegraph hefur eftir honum, að bresk lögregla geti ekki handtekið Sigurð vegna þess að handtökuskipunin, sem alþjóðalögreglan Interpol hefur gefið út að ósk sérstaks saksóknara, sé ekki gild utan Íslands.

Blaðið hefur fjallað um Burton og segir, að þeir sem sæti rannsókn af hálfu bresku efnahagsbrotadeildarinnar eða fjármálaeftirlitsins hringi oft fyrst í hann. Burton og og lögfræðistofa hans hafi verið kölluð til í nánast öllum umfangsmestu fjármálarannsóknum síðustu fjögurra áratuga. Þá hafi poppstjörnur á borð við Amy Winehouse leitað á náðir hans.

Alþjóðlegri handtökuskipun á hendur Sigurði hefur enn ekki verið framfylgt en málið er á könnu lögregluyfirvalda í London þar sem Sigurður er búsettur.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að embættið geri þeim hluta málsins ekki hærra undir höfði en öðrum þáttum en áfram sé unnið í því og samskipti séu á milli saksóknaraembættisins og bresku lögreglunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka