Telur tillögu um nímenninga ekki þingtæka

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lýsti þeirri skoðun á Alþingi í dag, að þingsályktunartillaga frá Birni Val Gíslasyni, þingmanni VG, um að ákæra á hendur nímenningunum svonefndu verði afturkölluð, sé ekki þingtæk.

Samkvæmt ályktuninni sem lögð var fram á miðvikudag, á skrifstofustjóri Alþingis að fara þess á leit við ríkissaksóknara að ákæra á hendur níu mótmælendum, fyrir að hafa rofið friðhelgi og fundarfrið Alþingis, verði dregin til baka og einnig ákæra um húsbrot.

Bjarni sagði að málið bæri það með sér, að það sé ekki þingtækt. Ef beina ætti máli til þingsins ætti að beina tilmælum til forseta þingsins, ekki skrifstofustjórans. Þar fyrir utan væri um að ræða íhlutun í aðgerðir framkvæmdavaldsins. Þingið ætti að setja lagarammann og reglur en ekki skipta sér af því hvernig þeim er framfylgt.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins tók í sama streng og spurði hvort þingið ætti að skipa dómstólunum fyrir. Sagði hún, að skrifstofustjóri Alþingis hefði farið fram á rannsókn á málinu vegna þess að þingverðir slösuðust. Siv sagði, að ræða þyrfti málið í forsætisnefnd Alþingis.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði einnig að treysta yrði dómstólunum. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sagðist hins vegar ekki taka undir þá skoðun, að málið væri ekki þingtækt og Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að um væri að ræða pólitíska málshöfðun gegn mótmælendunum.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði, að forseti þingsins úrskurðaði hvort mál séu þingtæk og hefði greinilega talið að þetta mál væri þingtækt úr því þingsályktunartillagan væri komið fram. Hins vegar hefði þingið ákveðin vopn, ef orðið hefðu glöp, þau að málið fer til nefndar og þar sé hægt að koma að mótbárum.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði að forseti færi ekki yfir það áður en málum er dreift hvort þau séu þingtæk eða ekki. Sagðist hún ekki hafa úrskurðað hvort þetta mál væri þingtækt og hefði enga athugun látið gera á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka