Fjölmenningardegi fagnað í Reykjavík

Hátíðin verður sett við Hallgrímskirkju í dag.
Hátíðin verður sett við Hallgrímskirkju í dag. mbl.is/Ómar

Fjölmenningardagur Reykjavíkur verður haldinn hátíðlegur í dag. Markmiðið með hátíðahöldunum er að fagna þeirri fjölbreyttu menningu sem borgarsamfélagið býður upp á.

Yfirskrift Fjölmenningardags Reykjavíkurborgar að þessu sinni er: Reykjavík – borg fjölbreytni og gleði. Glæsileg dagskrá er í boði sem miðar að því að allir fái notið sín og fjölmenningin blómstri, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Dagurinn er skipulagður af mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar í samstarfi við samtökin Samhljómur menningarheima.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri setur hátíðina við Hallgrímskirkju klukkan 13. Að setningu lokinni fer fjölþjóðleg skrúðganga af stað og verður gengið frá Hallgrímskirkju niður að Ráðhúsi Reykjavíkur.

Í kjölfarið verður svo haldin fjölþjóðleg hátíð í Ráðhúsinu og Iðnó þar sem boðið verður upp á skemmtiatriði með söng, hljóðfæraleik og dansi frá fjölmörgum þjóðlöndum.

Ennfremur verður haldinn alþjóðlegur markaður þar sem verða kynntar og seldar vörur frá hinum ýmsu löndum. 

Allir eru velkomnir og sjá má ítarlegri dagskrá á heimasíðu Reykjavíkur www.reykjavik.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka