Talsvert öskufok og öskufall er undir Eyjafjöllum að því er kemur fram á skráningarsíðu Veðurstofunnar. Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli er þykkur og dökkur samkvæmt myndum frá vefmyndavélum. Sést mökkurinn einnig frá höfuðborgarsvæðinu.
Í skráningu frá Drangshlíðardal á fjórða tímanum í dag segir, að þar sé öskufok svo að sjái varla upp að Skógum. Bjart hafi verið í morgun en síðan byrjaði askan að fjúka.
Í skráningu frá Ásólfsskála í morgun segir, að öskufall hafi byrjað um kl. 15:30 í gær og verið nánast látlaust síðan. Askan hafi verið fremur gróf með fínum salla.
Í gær segist skrásetjari hafa fengið hraunmola fljúgandi inn á pallinn hjá sér með miklum látum. Á mynd, sem fylgir, sést að molinn er um 3 sentimetra langur.