Þvo hús í Mýrdal

Slökkviliðsmenn úr Árnessýslu hafa aðstoðað íbúa undir Eyjafjöllum við að …
Slökkviliðsmenn úr Árnessýslu hafa aðstoðað íbúa undir Eyjafjöllum við að hreinsa ösku af þökum húsa sinna. mbl.is/Þorgeir Sigurðsson

„Við ætlum að þrífa allan bæinn og sveitirnar líka. Veður er gott, sól og blíða, og þetta ætti því að ganga vel,“ segir Guðmundur Ingi Ingason, svæðisstjóri almannavarna hjá ríkislögreglustjóra, en slökkvilið og sjálfboðaliðar ætla í dag og á morgun að þrífa ösku í Vík og í Mýrdal.

Við hreinsunarstarfið eru notaðir slökkvibílar og dælubílar frá fimm slökkviliðum, þ.e. frá höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, Hvolsvelli, Kirkjubæjarklaustri og Vík. Auk þess lánaði Mjólkursamsalan bíl sem flytur vatn á svæðið.

Mikil aska hefur fallið í Vík. Um 60 sjálfboðaliðar verða við störf í bænum í dag og á morgun. Búið er að skipta þeim niður í 4-5 manna hópa sem fara á milli og þrífa þök og annað sem þarf að skola. Guðmundur sagði að farið yrði líka á alla sveitabæi í Mýrdal með slökkvibíla.

Ekkert öskufall er í Mýrdal þessa stundina og aðstæður til að þrífa öskuna góðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert