Þótt íslenskum fyrirtækjum svíði yfirstandandi samdráttartímar sitja þau ekki með hendur í skauti heldur nýta tímann til að bæta samkeppnisstöðu sína í framtíðinni með vistvænum áherslum.
Aukið fjármagn í umhverfisstarf fyrirtækja er sennilega eitt af því síðasta sem menn áttu von á að sjá koma út úr kreppunni margumtöluðu. Haustið 2008 var það viðhorf víða að nú hefðu menn ekki lengur efni á að eltast við umhverfismál; baráttufólk fyrir vistvænni lifnaðarháttum saup hveljur og óttaðist að nú yrði ekki bara stöðnun heldur mörg skref stigin aftur á bak í þróun umhverfismála á Íslandi. En hver var raunin?
„Það kom mér dálítið á óvart að þegar kreppan skall á fór síminn hjá mér virkilega að hringja,“ segir Finnur Sveinsson hjá FSV ráðgjöf, sem sinnir ráðgjöf í umhverfismálum, í samtali við Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur í SunnudagsMogganum.
„Það er alltaf sagt að umhverfismálin séu mál góðu tímanna þegar fólk hefur efni á því að hugsa um þau en mín upplifun var þveröfug. Allir höfðu svo mikið að gera í góðærinu að þeir máttu ekki vera að því að hugsa um umhverfismál. Þegar bankarnir féllu var skyndilega fullt af fólki sem hafði ekkert að gera í vinnunni því fyrirtækin sögðu ekki upp jafn mörgum og þau hefðu í raun og veru þurft að gera. Niðurstaðan var sú að fyrirtækin nýttu starfskraftana í að undirbúa næstu góðæristíma með því að fara í gegnum gæðastarf fyrirtækisins, þar á meðal umhverfismálin,“ segir Finnur.
Önnur birtingarmynd þessa er uppgangur norræna umhverfismerkisins Svansins, en fjöldi íslenskra leyfishafa hefur tvöfaldast á síðustu mánuðum og fleiri eru væntanlegir. „Þegar ég byrjaði hjá Umhverfisstofnun í lok árs 2008 var kreppan að skella á. Þá hélt ég að það myndi draga úr áhuga á Svansmerkinu en reynslan varð önnur. Áhuginn hefur stóraukist á undanförnum misserum,“ segir Anne Maria Sparf, sem hefur umsjón með Svaninum á Íslandi. „Fyrirtækin fóru að hugsa um hvernig þau gætu bætt samkeppnishæfnina og sáu að umhverfismálin voru ein leið til þess. Um svipað leyti tók ríkið ákvörðun um að efla Svansmerkið sem féll vel að hinum aukna áhuga.“
Nánar í SunnudagsMogganum.