„Þetta er ekki lengur fyndið,“ segir Richard Branson, eigandi Virgin-flugfélagsins um þá ákvörðun flugmálayfirvalda í Bretlandi að loka flugvöllum vegna ösku sem berst frá Eyjafjallajökli.
Branson segir að allar rannsóknir sem flugfélög og flugvélaframleiðendur hafi gert bendi til að ekki hætta stafi af öskuskýjum og það sé fullkomlega öruggt að leyfa flugumferð þó að einhver aska sé í háloftunum.
Branson segir að það sé að sjálfsögðu hættulegt að fljúga yfir eldfjalli. Þetta eldfjall sé hins vegar í mörg hundruð mílna fjarlagð frá Bretlandi.
Branson segir að yfir þúsund flugvélar hafi tekið á loft frá Frakklandi í síðustu viku, en þá hafi verið sambærilegar aðstæður í háloftunum þar eins og eru núna yfir Bretlandseyjum. Engin vandamál hafi komið upp og ekkert bendi til að aska hafi skemmt flugvélarnar.
Branson segir að nú þurfi sterka forystu til að koma í veg fyrir að efnahagur Bretlands og flugfarþegar verði fyrir frekari tjóni af völdum eldfjallsins.
Flugmálayfirvöld í Bretlandi hafa mótmælt orðum Branson og bent á að öll flugfélög sem starfa þar, þar á meðal Virgin, hafi á fundi sl. föstudag samþykkt þær reglur sem unnið er eftir.