Blíðskaparveður hefur verið í Vestmannaeyjum í dag og hafa bæjarbúar nýtt daginn til að þrífa öskuna sem féll í gær. Bílar og gangstéttir hafa verið spúlaðar og þök sópuð.
Að sögn lögreglu eru bæjarbúar farnir að bíða spenntir eftir þriðjudeginum, en þá er spáð rigningu.
Lögreglan hefur haft í nógu að snúast með að dreifa rykgrímum til fólks. Askan er mjög fín og hefur hún náð að smeygja sér inn víða, bæði inn í bíla og inn á heimili fólks. Mörgum hefur gengið erfiðlega að sópa henni burt að sögn lögreglu. Rykið þyrlast bara upp í loft og sest svo aftur niður á sama stað.