Heathrow og Gatwick lokað

Flugmálayfirvöld í Bretlandi tilkynntu í kvöld að flugvöllunum á Heathrow og Gatwick yrði lokað frá og með kl. 01 í nótt vegna öskunnar sem borist hefur frá Eyjafjallajökli.

Brian Golding, yfirmaður spádeildar bresku veðurstofunnar, segir að búast megi við að öskuský verði við Bretland í fáeina daga eða þangað til vindáttin breytist. Hann segir að mörg tonn af ösku berist með háloftavindum frá Eyjafjallajökli. Þetta ástand vari þangað til vindur fari að blása af vestri.

Yfirvöld flugmála á Bretlandi munu endurmeta stöðuna á morgun. Farþegar eru hvattir til að hafa samband við flugfélögin áður en þau leggja af stað að heiman út á flugvöll.

Gjóskuframleiðsla í eldstöðinni er áætluð um 150 – 200 tonn/s þegar mökkurinn liggur í 6 - 7 km upp í um 400 tonn/s þegar hann er hæstur. Í dag náði mökkurinn 7-9 km hæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert