Gosvirkni undir Eyjafjallajökli virðist áfram nokkuð stöðug. Nokkrar sveiflur eru þó í mökknum frá degi til dags og nær hann hærra upp í dag en í gær, en veðurskilyrðin hafa áhrif þar á að sögn Veðurstofu Íslands.
Gjóskuframleiðslan er áætluð um 150 – 200 tonn/s þegar mökkurinn liggur í 6 - 7 km upp í um 400 tonn/s þegar hann er hæstur. Óvenju margar eldingar hafa mælst síðasta sólarhringinn.
Um 150 eldingar hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá því í um miðjan dag í gær. Frá því um kl. 8 í morgun og fram til kl. 11 mældust allt að 22 eldingar á klukkustund.
Gosmökkurinn er að jafnaði um 7 - 9 km skv. veðurratsjá. Hann stefnir suðaustur og síðan austsuðaustur (skv. veðurkortum og gervitunglamynd NOAA). Lítill vindur yfir eldstöðinni. Norðvestan 10 m/sek ofan við 7 km.
Tilkynningar um öskufall hafa komið frá Skógum, Vatnsskarðshólum, úr Mýrdalnum og frá Pétursey. Öskufall á þessu svæði hófst í gærkvöldi, fyrst vestast og færðist síðan austur á bóginn.
Rennsli við Gígjökul er lítið, líkt og undanfarna daga.
Gosmökkurinn hefur hækkað nokkuð í dag. Ekkert könnunarflug hefur verið nýlega, en samkvæmt vefmyndavélum og mælitækjum eru litlar breytingar.
Óróinn er nokkuð stöðugur og hefur verið svipaður síðustu vikuna.
Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka.